Kári Gauta framlengir út 2025

Fótbolti

Kári Gautason skrifaði undir nýjan samning við knattspyrnudeild KA í dag og er nú samningsbundinn félaginu út árið 2025. Kári sem er uppalinn hjá KA er afar spennandi leikmaður en þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gamall hefur hann nú þegar leikið þrjá leiki í efstudeild og bikar fyrir meistaraflokk KA.

Þá hefur Kári einnig leikið fjölda leikja í Lengjubikarnum og Kjarnafæðimótinu fyrir meistaraflokk KA. Um mitt síðasta sumar fór hann á láni til Magna á Grenivík þar sem hann lék alls átta leiki í baráttu liðsins í 2. deildinni.

Það eru afar jákvæðar fréttir að Kári hafi nú framlengt við KA og ljóst að það verður áfram spennandi að fylgjast með framgöngu hans á vellinum í gula og bláa búningnum. Það má með sanni segja að Kári komi úr mikilli KA fjölskyldu en bræður hans Dagur og Logi leika með meistaraflokk KA í handbolta, Ásdís systir æfir fótbolta hjá KA og þá vinna foreldrar hans þau Gauti og Hafdís gríðarlega mikið og gott sjálfboðastarf fyrir félagið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is