KA/Þór Bikarmeistari!

Handbolti

KA/Þór landaði sjálfum Bikarmeistaratitlinum eftir sannfærandi 26-20 sigur á Fram í úrslitaleiknum að Ásvöllum í gær. Stelpurnar sýndu frábæran leik, leiddu nær allan leikinn og var sigurinn í raun aldrei í hættu í síðari hálfleik.

Bikarkeppnin tilheyrir í raun síðasta tímabili en vegna Covid stöðunnar var bikarkeppninni slegið á frest svo hægt væri að klára deildarkeppnina og úrslitakeppnina á réttum tíma. KA/Þór eins og frægt er orðið tryggði sér sigur í öllum keppnunum á síðustu leiktíð og gátu því með sigri í bikarnum gert þetta ótrúlega tímabil enn sögulegra með því að vera handhafi allra titlanna.

Það var alls ekki að sjá að það væri stress í hópnum og KA/Þór komst fljótlega í 2-0 og síðar 6-2 með frábærum varnarleik. Framarar náðu þá góðum kafla sem breytti stöðunni í 7-8 en þá sögðu stelpurnar hingað og ekki lengra og stungu hreinlega af. Hálfleikstölur voru 12-9 okkar liði í vil og gleðin og baráttan skein af liðinu.

Áfram hélt veislan í þeim síðari og skyndilega var staðan orðin 16-10 og síðar 18-11. Stelpurnar virtust hreinlega vera með svör við öllum leikfléttum Framara og spiluðu hreint út sagt frábæran bolta. Það var ekki fyrr en Framarar fóru að taka Rut Jónsdóttur úr umferð að þeim tókst að riðla leik KA/Þórs og náðu í kjölfarið að minnka muninn í 20-17.

En eins og svo oft áður gaf þetta áhlaup okkar liði enn meiri kraft og stuttu síðar var munurinn aftur orðinn sex mörk, 23-17. Eftir það var þetta aldrei spurning og afar sannfærandi 26-20 sigur í höfn og fjórði titill tímabilsins staðreynd!

Það var algjör veisla að fylgjast með liðinu okkar á stóra sviðinu, það er alveg sama hvað hinir svokölluðu sérfræðingar segja, aldrei virðist stress eða eitthvað því um líkt bíta á okkar frábæra lið heldur mæta stelpurnar alltaf klárar í slaginn og tækla þau verkefni sem upp koma. Það er alveg ljóst að eins og staðan er í dag er KA/Þór besta lið landsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is