KA stelpur unnu TM mótið í Eyjum

Fótbolti
KA stelpur unnu TM mótið í Eyjum
Stelpurnar í KA1 með bikarinn eftir magnað mót!

KA sendi alls fimm lið á TM mótið í Vestmannaeyjum sem fór fram um helgina. TM mótið er eitt allra stærsta mót ársins og er ávallt beðið eftir því með mikilli eftirvæntingu. Ekki nóg með að hart sé barist inn á vellinum þá fer ávallt fram hæfileikakeppni milli félaganna.

Stelpurnar okkar lögðu gríðarlega vinnu á sig við stórkostlegt dansatriði og stóðu uppi sem sigurvegarar keppninnar. Dómnefndin kolféll fyrir atriði stelpnanna og sagði meðal annars "mjög flottur dans sem inniheldur samsetningar og gott flæði. Samhæfing hópsins mjög góð. Frábær staðsetning á tökustað og skemmtileg myndataka. Hellingur af húmor en umfram allt mikil og heillandi leikgleði. Alger negla hjá KA!"


Algjör negla hjá stelpunum í hæfileikakeppninni!

Stelpurnar í KA1 fóru svo hamförum á vellinum en liðið lék við hvurn sinn fingur og tryggði sér að lokum sæti í sjálfum úrslitaleiknum. Þar mættu þær liði Víkings og var alls ekki að sjá að eitthvað stress væri í okkar liði því stelpurnar unnu leikinn 3-1 og hömpuðu þar með bikarnum í leikslok. Stelpurnar unnu alla tíu leiki sína á mótinu, skoruðu 41 mark og fengu aðeins á sig þrjú mörk.

KA4 gerði sér líka lítið fyrir og hampaði Bergeyjarbikarnum eftir góðan 2-1 sigur á Snæfellsnesi í úrslitaleiknum. Mikill stígandi var í leik stelpnanna sem kristallaðist svo í krefjandi úrslitaleik og eru þær vel að titlinum komnar.

KA2 stóð líka heldur betur fyrir sínu en þær enduðu í sterkri deild í Ísleifsbikarnum þar sem þær kepptu um bronsverðlaunin. Eftir krefjandi leik gegn Álftanesi-1 þurftu stelpurnar að sætta sig við 1-2 tap en geta svo sannarlega verið stoltar af sinni framgöngu.

KA3 lék að lokum í Dala-Rafnsbikarnum þar sem þær spiluðu um 5. sætið gegn Þrótti Reykjavík-3. Eftir mikinn baráttuleik sættust liðin á 1-1 jafntefli og enda því í 5.-6. sæti keppninnar.

Að lokum sýndi KA5 mikinn karakter á mótinu og spiluðu að lokum í Sigurðarbikarnum. Þar mættu þær öflugu liði Breiðabliks í leik um 5. sætið og unnu leikinn 1-0 sem tryggði þar með 5. sætið í keppninni.

Við getum svo sannarlega verið stolt af okkar liðum á þessu sterka og öfluga móti og alveg ljóst að framtíðin er svo sannarlega björt hjá stelpunum okkar. Ekki nóg með að vera frábærar á vellinum sjálfum eru þær til fyrirmyndar utan hans einnig og þá var sigurinn í hæfileikakeppninni gott merki um þann frábæra anda sem ríkir í hópnum.

Þjálfarar hópsins eru þeir Andri Freyr Björgvinsson, Anton Orri Sigurbjörnsson og Egill Heinesen.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is