Flýtilyklar
KA og Þór/KA leika í Kjarnafæðismótinu í dag
Kjarnafæðismótið í knattspyrnu er í fullum gangi og í kvöld leika bæði KA og Þór/KA í Boganum. Athugið að engir áhorfendur eru leyfðir á leikjunum en þess í stað verða báðir leikir í beinni á KA-TV og því um að gera að fylgjast vel með gangi mála.
KA mætir Þór 2 í öðrum leik sínum í riðli 1 en KA vann 6-0 sigur á KF á dögunum. Lið Þórs 2 tapaði hinsvegar 1-2 fyrir KF og ljóst að ungt lið Þórs mun mæta inn í leikinn án allrar pressu. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og vonandi skemmtilegur leikur framundan.
Þór/KA mætir hinsvegar liði Völsungs í sínum öðrum leik í mótinu en stelpurnar unnu 2-0 sigur á liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis fyrr í mótinu. Völsungur gerði hinsvegar 2-2 jafntefli við lið Þórs/KA 2 þar sem liðið missti niður tveggja marka forystu. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður eins og áður segir í beinni á KA-TV.