Flýtilyklar
KA í undanúrslit Mjólkurbikarsins!
KA vann 3-0 sigur á Ægismönnum á Greifavellinum í gær en með sigrinum tryggðu strákarnir sér sæti í undanúrslitum Mjólkurbikarsins og heldur frábært gengi liðsins í sumar því áfram og afar spennandi tímar framundan.
KA var vissulega talið sigurstranglegra fyrir leikinn í gær en Ægismenn sem leika í 2. deild voru að leika í fyrsta skiptið í 8-liða úrslitum bikarsins. Svona leikir geta hinsvegar oft reynst ansi krefjandi fyrir sterkara liðið enda hefur andstæðingurinn í raun allt að vinna og gefur það oft aukinn kraft.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
Það varð heldur betur raunin því Ægismenn mættu vel skipulagðir til leiks og gáfu okkar liði hörkuleik. KA liðið var vissulega mun meira með boltann og stýrði leiknum en það gekk erfiðlega að fá opin marktækifæri og þá tókst Ægismönnum í nokkur skipti að skapa hættu við mark okkar.
Fyrri hálfleikur var markalaus og það hélt áfram uns kortér lifði leiks. Þá renndi Sveinn Margeir Hauksson boltanum loks í netið eftir laglegan undirbúning. Strákarnir mega eiga það að þeir sýndu flottan karakter með að halda í þolinmæðina og spila áfram sinn leik.
Í kjölfarið fóru gestirnir framar á völlinn og Nökkvi Þeyr Þórisson nýtti sér það í tvígang í uppbótartíma og lokatölur því 3-0 sigur KA sem var ansi hreint torsóttur. Lið Ægis á hrós skilið fyrir sína framgöngu í bikarnum og var gaman að fylgjast með liðinu og stuðningsmönnum þess á Greifavellinum í gær.
KA er hinsvegar komið áfram í undanúrslit bikarsins í áttunda skiptið í sögunni og í fyrsta skiptið frá árinu 2015. Það eru hrikalega spennandi tímar framundan hjá okkur og verður áhugavert að sjá hverjir andstæðingar okkar verða en það kemur í ljós á næstu dögum. Auk bikarævintýrisins eru strákarnir í toppbaráttu í Bestu deildinni og taka á móti ÍA á sunnudaginn þar sem mikilvæg þrjú stig eru í húfi.