Julia Bonet íþróttakona KA árið 2024

Almennt | Handbolti | Blak | Lyftingar
Julia Bonet íþróttakona KA árið 2024
Efstu þrjár í kjörinu ásamt formönnum

Julia Bonet Carreras úr blakdeild KA var í dag kjörin íþróttakona KA fyrir árið 2024. Önnur í kjörinu var lyftingakonan Drífa Ríkarðsdóttir og þriðja var handknattleikskonan Anna Þyrí Halldórsdóttir.

Einnig var knattspyrnukonan Margrét Árnadóttir tilnefnd en eins og venja er voru það fyrrum formenn KA sem sáu um úthlutunina en að þessu sinni mættu þau Hermann Sigtryggsson og Hrefna G. Torfadóttir ásamt núverandi formanni honum Eiríki S. Jóhannssyni.

Julia Bonet er íþróttakona KA þetta árið en hún átti frábært tímabil er KA varð Deildar- og Íslandsmeistari kvenna í blaki árið 2024. Julia er afar mikilvægur leikmaður fyrir KA en hún er kantsmassari sem skilar mörgum boltum beint í gólf hjá andstæðingunum. Hún var í liði ársins í úrvalsdeild hjá Blaksambandinu og var valin besti erlendi leikmaðurinn í deildinni sem sýnir hve mögnuð hún er. Julia er jákvæð, hvetjandi og góður liðsfélagi sem okkar ungu og efnilegu stúlkur líta upp til.

Hún hefur líka náð góðum árangri sem þjálfari hjá okkur í yngri flokkum. Julia ásamt Zdravko hefur einnig átt veg og vanda að strandblaksæfingum og þjálfun byrjenda jafnt sem lengra komna í strandblakinu hér á Akureyri. Hún hefur einnig tekið þátt í strandblaksmótum hér innan lands og oftar en ekki tekið efstu sætin á þeim mótum.

Drífa sem varð önnur í kjörinu hefur verið ein fremsta kraftlyftingakona landsins í ár og endar hún árið sem næst stigahæsta kona ársins í klassískum kraftlyftingum. Hún hefur verið til fyrirmyndar á allan hátt og verið mikil fyrirmynd fyrir aðra í deildinni með árangri sínum og áræðni. Hún hefur slegið fjöldann allan af íslandsmetum á árinu og er talin ein efnilega lyftingakona landsins.

Í janúar keppti hún á Reykjavíkurleikunum og varð þar í öðru sæti þar sem hún lyfti samanlagt 387.5kg og sló m.a. íslandsmet í hnébeygju með 135kg og réttstöðulyftu með 172.kg lyftu.

Drífa keppti á evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, en varð fyrir því óláni að meiðast viku fyrir mótið. Hún keppti engu að síður og átti sæmilegasta mót þrátt fyrir meiðslin og lyfti 352.kg í samanlögðu og varð þar í 21. Sæti í sínum flokk.

Drífa keppti einnig á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í júní, þar átti hún gott mót í hnébeygju og bekkpressu og bætti sé í bekkpressu og tók þar 87.5kg. Því miður féll hún þó úr keppni í réttstöðulyftu þar sem hún náði ekki gildri lyftu þar.

Núna í október má svo með sanni segja að hún hafi bætt upp fyrir heimsmeistaramótið þar sem hún keppti á íslandsmeistarmótinu, þar sem hún átti alveg frábært mót og lyfti 407.5kg í samanlögð, þar sem hún tvíbætti íslandsmetið sitt í hnébeygju og endaði með 137.5kg þar, tók 85kg í bekkpressu og að lokum þríbætti svo sitt eigið réttstöðulyftu með og endaði þar með 185kg.

Drífa endar því árið á gríðarlegan sterkan hátt og verðum mjög spennandi að sjá hana keppa fyrir hönd KA og landsliðið á næsta ári.

Anna Þyrí sem varð þriðja í kjörinu er varafyrirliði KA/Þórs og þrátt fyrir að vera einungis 23 ára er hún orðin gríðarlega reynslumikil. Hún er lykilmaður í liði KA/Þórs og hefur verið það undanfarin ár, jafnt í vörn sem og sókn. KA/Þór er sem stendur efst og taplaust í Grill66 deildinni og stefnir hraðbyri að því að endurheimta sæti sitt í deild þeirra bestu.

Anna Þyrí er öflugur línumaður, klárlega einn besti varnarmaður sem spilar á Íslandi og hefur sýnt það bæði í Olísdeildinni á síðustu keppnistímabilum og ekki síður í ár. Hún hefur verið óstöðvandi í sókn á þessu tímabili með tæplega 5 mörk að meðaltali í auk þess að hafa fiskað 24 víti í 8 leikjum. Hún er mikill leiðtogi, gefur mikið af sér til liðsfélagana og er fyrirmynd fyrir aðra hvað varðar baráttu og gott hugarfar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is