Jólamót 15-45 ára í júdó.

Júdó
29. desember fór fram jólamót júdódeildar KA í elsta aldursflokknum.  Keppendur voru á aldrinum 15-45 ára.  Keppt var í tveimur flokkum karla, undir og yfir 80 kg, og einum flokki kvenna.  Um hörkumót var að ræða og er óhætt að segja að elstu þátttakendur hafi þurft að innbyrða slatta af verkjastillandi og bólgueyðandi lyfjum dagana eftir mótið.  Gömul júdókempa, Bjarni Steindórsson, tók myndir á mótinu og er hægt að skoða þær  hér.
Annars gekk mótið fyrir sig með eftirfarandi hætti:

Kvennaflokkur.
Í þessum flokki var Helga Hansdóttir sterkust en fékk þó harða mótspyrnu frá Kristínu Ástu Guðmundsdóttur.  Keppnin um næstu sæti var mjög hörð.  Kristín átti þar í baráttu við þær Fionu Ýr Sigurðardóttur og Guðrúnu Ösp Ólafsdóttur.  Fóru leikar svo að Kristín var í öðru sæti, Fiona í þrjðja og Guðrún í því fjórða.  Stelpurnar hafa allar æft mjög vel í vetur og farið mjög mikið fram.

Undir 80 kg.
Strax í fyrstu umferð urðu úrslit mjög óvænt þegar nýliðinn Björn Ingi Svavarsson henti reynsluboltanum Hilmari Trausta Harðarssyni á Ippon.  Annað gamalt brýni, Hans Rúnar Snorrason, lét ungviðið ekki koma sér úr jafnvægi og lagði þá hvern á eftir öðrum.  Þegur leik var lokið voru þeir jafnir að vinningum Hans og Hilmar en Hans með fleiri stig og sigraði því.  Ragnar Logi Búason varð í þriðja sæti en þeir Björn Ingi og Svanur Hólm Steindórsson jafnir í fjórða sæti.

Yfir 80 kg.
Í þessum flokki börðust eggin við hænuna ef svo má segja, því þarna gafst iðkendum færi á að berja á þjálfara sínum.  Og ekki verður það af þeim tekið að það gerðu þeir ósvikið og af greinilegri ánægju.  En reynslan og hugsanlega einhver umframþyngd, fleytti þjálfaranum í úrslit þar sem að hann tapaði sannfærandi fyrir Ingþóri Erni Valdimarssyni.  Adam Brands Þórarinsson varð í þriðja sæti.

Í heildina var þetta mjög gott mót, miklu betra en menn áttu von á.  Á nýju ári er á áætlun að keppa mun oftar hér á Akureyri, líklega mánaðarlega.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is