Ívar í U17 og Ingimar í U19 landsliðunum

Fótbolti

Það eru stórir leikir framundan hjá U17 og U19 ára landsliðum Íslands í fótbolta en bæði lið leika í milliriðlum í undankeppni EM dagana 22.-28. mars næstkomandi og eigum við KA-menn fulltrúa í báðum liðum.

Ívar Arnbro Þórhallsson er í U17 ára landsliðinu og þá er Nóel Atli Arnórsson úr AaB í Danmörku einnig í hópnum en Nóel hefur æft mikið með KA undanfarin ár. U17 strákarnir mæta Svartfjallalandi, Wales og Skotlandi í milliriðlinum en efsta liðið fer áfram í lokakeppnina auk þess að sjö af þeim átta liðum sem enda í 2. sæti í riðlinum fara í lokakeppnina. Milliriðillinn fer fram í Wales.

Þá er Ingimar Stöle Thorbjörnsson í U19 ára landsliðinu en Ingimar gekk nýverið í raðir KA frá Viking Stavanger. U19 ára liðið mætir Englandi, Tyrklandi og Ungverjalandi í sínum milliriðli en leikið er á Englandi og fer efsta liðið beint áfram í lokakeppnina í Möltu í sumar.

Óskum okkar mögnuðu fulltrúum til hamingju með valið sem og góðs gengis í þessu spennandi verkefni!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is