Ingimar og Nóel í eldlínunni með U20

Fótbolti
Ingimar og Nóel í eldlínunni með U20
Ingimar og Nóel frábærir fulltrúar KA í hópnum

KA átti tvo fulltrúa í U20 ára landsliði Íslands í knattspyrnu sem lék tvo æfingaleiki við Ungverja á dögunum en báðir leikir fóru fram í Ungverjalandi. Þetta eru þeir Ingimar Torbjörnsson Stöle og Nóel Atli Arnórsson.

Ingimar og Nóel komu báðir inn á sem varamenn í fyrri leik þjóðanna sem Ungverjar unnu 2-0. Í síðari leiknum sem fór fram tveimur dögum síðar voru þeir félagar báðir í byrjunarliðinu og lék Nóel allan leikinn en Ingimar lék fyrstu 63. mínútur leiksins. Ungverjar unnu leikinn 4-0.


Sævar Pétursson framkvæmdarstjóri KA og Ingimar með verðlaun sín sem efnilegasti leikmaður KA á lokahófi knattspyrnudeildar í haust

Ingimar skrifaði undir nýjan samning út sumarið 2025 fyrr á árinu en hann stóð sig frábærlega á sínu fyrsta tímabili með meistaraflokk KA á síðustu leiktíð. Hann lék alls 23 leiki, þar á meðal þrjá í Evrópu og vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína. Á lokahófi knattspyrnudeildar var hann loks kjörinn efnilegasti leikmaður KA.


Nóel Atli hefur brotið sér leið inn í aðallið Álaborgar að undanförnu

Nóel Atli hefur staðið sig frábærlega í akademíu Álaborgar í Danmörku og hefur verið að brjóta sér leið inn í aðallið félagsins. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í ágúst mánuði síðastliðnum er hann kom inn á sem varamaður í 8-0 sigri liðsins á Egen í danska bikarnum. Þá lék hann sinn fyrsta byrjunarliðsleik með liði Álaborg þann 10. mars er Álaborg vann 4-3 sigur á Vendsyssel í toppslag í næstefstu deild.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is