HK sótti tvö stig norður (myndir)

Handbolti
HK sótti tvö stig norður (myndir)
Hlutirnir féllu ekki með okkur mynd Þórir Tryggva)

KA tók á móti HK í Olís deild karla um helgina en þetta var fyrsti heimaleikur KA liðsins eftir jólafríið. Fyrir leikinn var KA í 9. sæti deildarinnar með 11 stig en gestirnir voru á botninum með 2 stig og þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að halda lífi í sínum vonum um áframhaldandi veru í deild þeirra bestu.

Leikurinn fór jafnt af stað og stefndi allt í hörkuleik en staðan var 6-7 fyrir gestina þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður. En þá hrökk allt í baklás hjá okkar liði og HK komst skyndilega í 6-11. Staðan var 10-14 fyrir gestina er flautað var til hálfleiks og ljóst að strákarnir þyrftu að gefa allhressilega í í síðari hálfleik til að snúa dæminu við.


Smelltu á myndina til að skoða myndaveislu Þóris Tryggvasonar frá leiknum

En gestirnir úr Kópavogi voru greinilega mættir norður til að sækja tvö stig og þeir vörðu forskot sitt með mikilli baráttu. Það var ekki fyrr en um sjö mínútur lifðu leiks að strákunum tókst loksins að minnka muninn niður fyrir fjögur mörk en það dugði ekki og HK vann að lokum 23-26 sigur.

Gríðarlega svekkjandi niðurstaða enda er farið að styttast í lok deildarinnar og hvert stig fer að verða ansi mikilvægt. HK er hinsvegar komið með 4 stig með sigrinum og er því enn á lífi í fallbaráttunni. Spilamennska okkar liðs var ekki nægilega góð og áttu flestir leikmenn okkar ansi mikið inni. Þá féll ansi lítið með liðinu sem er rándýrt í leik sem þessum.

Daníel Örn Griffin var besti maður okkar liðs en hann var markahæstur með 8 mörk, Dagur Gautason gerði 7, Patrekur Stefánsson 3, Andri Snær Stefánsson 2, Daníel Matthíasson 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1 og Sigþór Gunnar Jónsson 1 mark.

Svavar Ingi Sigmundsson byrjaði í marki KA og hóf leikinn af krafti en svo dróg af honum og Jovan Kukobat kom inná í hans stað. Svavar varði alls 5 skot og Jovan 6 skot.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur næstu helgi gegn Íslandsmeisturum Selfoss og klárt að strákarnir þurfa á betri frammistöðu að halda til að eiga möguleika gegn öflugu liði Selfyssinga.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is