Flýtilyklar
HK jafnaði KA/Þór með sigri í Kórnum
KA/Þór sótti HK heim í 10. umferð Olís deildar kvenna í dag en þarna mættust liðin í 4. og 5. sæti deildarinnar. Liðin eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni og ljóst að stigin tvö yrðu gríðarlega þýðingarmikil. Í fyrri leik liðanna í vetur vann KA/Þór 26-25 sigur í æsispennandi leik.
Það kom því ekki á óvart að leikurinn fór hnífjafnt af stað og var jafnt á öllum tölum fyrsta kortérið og skiptust liðin á að leiða. Liðin voru að spila góðan sóknarleik og var leikurinn bráðfjörugur. Stelpurnar náðu að komast tveimur mörkum yfir er fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður og tóku frumkvæðið í kjölfarið.
Manni fleiri fengu stelpurnar tvö úrvalsfæri á að komast þremur mörkum yfir í stöðunni 9-11 en það tókst ekki og HK jafnaði metin á nýjan leik. Hálfleikstölur voru 14-14 og ljóst að stelpurnar þyrftu að loka aðeins betur varnarlega til að klára leikinn.
Sama spenna var í upphafi síðari hálfleiks og mátti vart sjá hvoru megin sigurinn myndi enda, KA/Þór leiddi 16-18 en HK svaraði með þremur mörkum áður en stelpurnar svöruðu á nýjan leik með næstu tveimur mörkum og leiddu því 19-20.
Staðan var jöfn 24-24 er tæpar tíu mínútur lifðu leiks en þá kom slæmur kafli sem HK nýtti sér til að breyta stöðunni í 28-25. Stelpurnar brugðu á það ráð að taka tvo leikmenn HK úr umferð en það dugði ekki til og HK vann á endanum
Því miður vantaði meira bit í varnarleik liðsins í dag og því fór sem fór. Matea Lonac varði 12 skot í markinu og varði á köflum ansi vel en datt niður á milli. HK jafnaði þar með stelpurnar í 4.-5. sæti deildarinnar og gríðarlega hörð barátta framundan um úrslitakeppnissæti.
Stelpurnar eiga einn leik eftir fyrir jólafrí en það er heimaleikur gegn Haukum á laugardaginn og ekki nokkur spurning að liðið mun lappa upp á varnarleikinn og bæta upp fyrir tapið í dag.