Heimaleikur gegn Uppsveitum í bikarnum

Fótbolti

Dregið var í 32-liða úrslit Mjólkurbikars karla í dag en áætlað er að leikið verði dagana 19.-21. apríl næstkomandi. Liðin í Bestu deildinni komu inn í pottinn í umferðinni en hin 20 félögin í pottinum höfðu unnið sína leiki í fyrstu og annarri umferð keppninnar.

Það má heldur betur segja að drátturinn hafi verið áhugaverður en KA fékk heimaleik gegn liði Uppsveita. Uppsveitir leika í 4. deild og hafa liðin aldrei mæst áður. Uppsveitir áttu ansi góðu gengi að fagna síðasta sumar en liðið vann 13 af 14 leikjum sínum í C-riðli 4. deildar en komst ekki uppúr úrslitakeppninni eftir tap gegn Árbæingum.

Uppsveitir slógu út Hamar í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins með 7-0 stórsigri á heimavelli þar sem George Razvan Chariton gerði fernu og Sergio Fuentes Jorda gerði þrennu. Liðið tryggði sér svo sæti í 32-liða úrslitum með 4-3 sigri á KÁ þar sem George Razvan Chariton, Víkingur Freyr Erlingsson, Tómas Stitelmann og Máni Snær Benediktsson gerðu mörkin.

KA fór alla leið í undanúrslit bikarsins í fyrra en það var í fyrsta skiptið frá árinu 2015 að KA fór í undanúrslit keppninnar. KA hefur í heildina átta sinnum komist í undanúrslit bikarsins og þrisvar leikið til úrslita en aldrei hampað bikarnum. Sameiginlegt lið ÍBA varð þó bikarmeistari í knattspyrnu karla árið 1969.

Annað árið í röð mætir KA liði sem við höfum aldrei mætt áður en KA lagði lið Ægis 3-0 í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í fyrra þar sem Sveinn Margeir Hauksson kom KA í 1-0 áður en Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði tvívegis.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is