Flýtilyklar
Hallgrímur Mar leikjahæstur í sögu KA
Hallgrímur Mar Steingrímsson er nú leikjahæsti leikmaðurinn í sögu knattspyrnudeildar KA en Grímsi sló metið í sigurleiknum á Leiknismönnum í gær. Hann hélt að sjálfsögðu upp á daginn með tveimur mörkum!
Grímsi hefur í dag leikið 232 leiki fyrir KA í deild og bikar og gert í þeim 70 mörk. Hann tók þar með framúr Sandor Matus sem lék 231 leik í markinu fyrir KA á árunum 2004 til 2013. Þriðji á listanum er Dean Martin með 214 leiki.
Hallgrímur Mar er uppalinn hjá Völsung á Húsavík en kom átján ára til liðs við KA fyrir sumarið 2009. Síðan þá hefur hann verið algjör lykilmaður í liði KA og í þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað innan liðsins síðan þá en ekki nóg með að vera leikjahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins þá er hann einnig markahæsti leikmaður KA í efstu deild með 30 mörk.
Þá er Grímsi farinn að sækja að markahæsta leikmanni í sögu KA en Hreinn Hringsson gerði alls 73 mörk fyrir félagið á árunum 2000 til 2006.