Flýtilyklar
Hallgrímur Mar framlengir út 2025!
Hallgrímur Mar Steingrímsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild KA og er nú samningsbundinn út sumarið 2025. Þetta eru stórkostlegar fréttir enda Grímsi algjör burðarás í KA liðinu og heldur betur skrifað nafn sitt í sögu félagsins.
Grímsi lék á dögunum sinn 300 leik fyrir KA en hann er nú kominn með 301 leik í deild, bikar og Evrópu fyrir KA og er hann leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins. Af þessum leikjum eru 147 í efstu deild sem er einnig félagsmet en hann hefur ekki misst af deildarleik með KA frá því að KA tryggði sér sæti í efstu deild sumarið 2016.
Þá hefur Grímsi skorað 91 mark í þessum leikjum sem er félagsmet og eru 47 af þeim í efstu deild sem er enn eitt metið sem þessi magnaði kappi á hjá KA. Þá skoraði hann 500. mark KA í sögu efstudeildar síðasta sumar er hann tryggði KA 2-1 sigur á Breiðablik síðasta sumar.
Enn eitt blaðið braut Grímsi á dögunum er KA vann 2-0 sigur á liði Connah's Quay Nomads í undankeppni Sambandsdeildar UEFA á dögunum er hann kom KA í 1-0 en þetta var fyrsta mark hans í Evrópukeppni sem og hans fyrsti leikur í Evrópu fyrir KA.
Þrívegis hefur Hallgrímur skorað þrennu fyrir KA en hann gerði fyrst þrennu í heimaleik gegn ÍBV í efstu deild sumarið 2017. Sumarið 2019 gerði hann svo þrennu í bikarleik gegn Sindra en hann gerði þrennuna á aðeins tíu mínútna kafla. Þá skoraði hann einnig þrennu gegn Gróttu á Seltjarnarnesi sumarið 2020 er liðin mættust í efstu deild.
Kappinn er uppalinn hjá Völsung á Húsavík en kom átján ára til liðs við KA fyrir sumarið 2009. Síðan þá hefur hann verið algjör lykilmaður í liði KA og í þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað innan liðsins síðan þá er liðið fór úr því að leika í næstefstu deild í að berjast á toppi Bestudeildarinnar og leika í Evrópu.
Það eru heldur betur stórkostlega fréttir að Grímsi hafi framlengt samning sinn við KA og ljóst að þessi magnaði kappi mun halda áfram að endurskrifa söguna með KA. Framundan eru ansi stórir leikir en á fimmtudaginn sækja strákarnir Connah's Quay heim í síðari leiknum í Evrópukeppninni og freista þess að tryggja sér sæti í næstu umferð. Þá er sjálfur bikarúrslitaleikurinn framundan þann 26. ágúst en þetta verður í fyrsta sinn frá árinu 2004 sem KA leikur til úrslita í bikarnum.