Flýtilyklar
Hallgrímur Jónasson framlengir við KA
Hallgrímur Jónasson skrifaði í dag undir nýjan samning við Knattspyrnudeild KA og er því áfram samningsbundinn liðinu út næsta tímabil. Ásamt því að vera leikmaður KA hefur Hallgrímur undanfarin tvö tímabil verið aðstoðarþjálfari liðsins og mun áfram sinna báðum störfum.
KA endaði í fjórða sæti efstu deildar á nýliðnu tímabili sem er jöfnun á besta árangri KA frá Íslandsmeistaraárinu 1989. Arnar Grétarsson mun áfram stýra liðinu en hann og Hallgrímur hafa unnið ákaflega vel saman og mikilvægt skref að halda því samstarfi áfram.
Hallgrímur gekk til liðs við KA fyrir sumarið 2018 hefur leikið 29 leiki í deild og bikar fyrir félagið og gert í þeim eitt mark. Hann varð fyrir slæmum meiðslum sumarið 2020 og spilaði því ekki á nýliðnu tímabili. Það verður því heldur betur gaman að sjá hann aftur á vellinum á því næsta.
Haddi hefur komið af miklum krafti inn í félagið og á svo sannarlega stóran þátt í því að lyfta félaginu upp á þann stall sem það er nú komið. Ekki nóg með að vinna ötullega að starfi meistaraflokks hefur hann einnig látið til sín taka í yngriflokkastarfinu og miðlað af sinni miklu reynslu en hann lék sem atvinnumaður hjá Lyngby BK, OB, SønderjyskE og GAIS.
Þá hefur Haddi leikið 16 leiki fyrir A-landslið Íslands og gert í þeim þrjú mörk, tvö gegn Portúgal og eitt gegn Svíþjóð. Það eru gríðarlega jákvæðar fréttir fyrir okkur að njóta áfram krafta Hallgríms og verður eins og fyrr segir ákaflega ánægjulegt að sjá hann aftur á vellinum á komandi tímabili.