Flýtilyklar
Hákon og Sindri léku sinn fyrsta leik
KA vann 5-1 sigur á KA2 í Kjarnafæðismótinu á dögunum en leikurinn var liður í 2. umferð mótsins. KA er eitt á toppi A-deildar með fullt hús stiga eftir leikinn en framundan eru fjórir leikir í mótinu eftir áramót.
Áki Sölvason kom KA liðinu á bragðið strax á 9. mínútu áður en Bjarni Aðalsteinsson tvöfaldaði forystuna með marki úr aukaspyrnu á 25. mínútu. Þetta var þriðja aukaspyrnumark Bjarna í aðeins tveimur leikjum og virkilega gaman að sjá hve öflugur Bjarni er orðinn í aukaspyrnununum.
Áki hóf síðari hálfleikinn af krafti og gerði tvö mörk á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiksins og fullkomnaði þar með þrennu sína. Bjarni bætti við öðru marki áður en Hlynur Viðar Sveinsson lagaði stöðuna fyrir KA2.
Hákon Orri Hauksson og Sindri Sigurðarson komu báðir inn á sem varamenn í leiknum og léku þar með sinn fyrsta meistaraflokksleik. Báðir eru þeir fæddir árið 2005 og var gaman að sjá hve vel þeir nýttu tækifærið. Verður gaman að fylgjast með framgöngu þeirra.