Fyrsti heimaleikur er á morgun | Halldór þjálfari: Nota leikmenn úr eigin starfi og gefa uppöldum leikmönnum tækifæri

Handbolti

KA tekur á móti Fram í fyrsta heimaleik drengjanna í Olís-deild karla þennan veturinn. Leikurinn hefst kl. 19:30 annaðkvöld (fimmtudag) og verður væntanlega hart barist.

Af því tilefni fékk KA.is Halldór Stefán þjálfara liðsins til að svara nokkrum spurningum

Hvernig er stemmingin fyrir vetrinum?

Stemningin er bara góð, við erum búnir að æfa vel og byrjuðum nokkuð snemma og fórum snemma í sumarfrí, þannig það hefur verið löng æfingaperíóda. Ég reikna með því að menn séu orðnir nokkuð spenntir fyrir því að hefja deildina

Fyrsti veturinn hjá KA og í karlaboltanum, finnuru fyrir pressu?

Fyrst og fremst bara tilhlökkun að fá að stýra meistaraflokki karla í þessu flotta félagi, pressan kemur aðalega frá manni sjálfum að ná árangri í sínu starfi. Annars á ég nú hálft tímabil í karlaboltanum þar sem ég var með marga góða í Fylki á sínum tíma.

Hver eru markmið liðsins í sumar?

Mælanleg frammistöðumarkmið liðsins í vetur eru að ná 6.sæti í deild og að verða bikarmeistarar.

Hvað verður lykilinn að velgengni hjá KA í vetur?

Lykilinn að velgengni verður að halda áfram að byggja góðan æfingakúltúr í liðinu og vera með sterka hugmyndafræði um það hvernig við viljum leika okkar leik og hafa trú á þeirri hugmyndafræði í gegnum tímabilið. Vinna með það að bæta ofan á það sem við gerum vel. Svo er það auðvitað gamla klisjan að eldri menn þurfa að haldast heilir og yngri leikmenn þurfa að taka skref uppávið eftir því sem að líður á tímabilið.

Ertu ánægður með leikmannahópinn eða á að bæta við?

Ég er mjög ánægður með leikmannahópinn og sáttur með það sem við höfum en við hefðum alveg þurft að bæta við okkur 1-2 sterkum leikmönnum í viðbót til að auka gæðin enn frekar. Sá leikmaður hefur hinsvegar ekki staðið okkur til boða í þeim stöðum sem við myndum vilja styrkja og þá er betra að nota leikmenn úr eigin starfi og gefa uppöldum leikmönnum möguleika á að taka þær stöður sem eru lausar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is