Frábær útisigur og sætið tryggt!

Handbolti
Frábær útisigur og sætið tryggt!
Frábær sigur í dag! (mynd: EBF)

KA gerði afar góða ferð á Seltjarnarnesið í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta í dag þegar strákarnir okkar unnu 30-31 útisigur á liði Gróttu. Fyrir leikinn var enn möguleiki á að KA myndi missa sæti sitt í efstu deild en það var ljóst frá fyrstu mínútu að strákarnir ætluðu ekki að láta það gerast.

Að auki tapaði ÍR fyrir Fram og endaði KA liðið því þremur stigum fyrir ofan ÍR-inga sem féllu því um deild. Leikur okkar gegn Gróttu var hnífjafn og spennandi nær allan tímann en strákarnir okkar höfðu frumkvæðið nær allan tímann og leiddu 18-19 í hálfleik.

Í síðari hálfleik leiddi KA liðið nær ávallt með 1-2 mörkum en á lokamínútunni jöfnuðu Gróttumenn metin í 30-30 en það var við hæfi að Gauti Gunnarsson skyldi tryggjað sætan KA sigur með lokamarkinu en Gauti átti stórbrotinn leik og var markahæstur með 8 mörk og það úr einungis 8 skotum.

Einar Rafn Eiðsson gerði 7 mörk í leiknum, þar af tvö úr vítum, Ólafur Gústafsson gerði 6, Jens Bragi Bergþórsson 3, Patrekur Stefánsson 2, Dagur Gautason 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2 og Einar Birgir Stefánsson 1 mark. Í markinu varði Bruno Bernat 8 skot og Nicholas Satchwell 1 skot.

Krefjandi vetur því að baki en strákarnir kláruðu dæmið og klárt að við byggjum áfram á okkar gildum og sjáumst fersk næsta vetur, takk fyrir stuðninginn í vetur!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is