Frábær árangur júdófólks á Afmælismóti JSÍ.

Júdó
KA átti 7 keppendur á Afmælismóti JSÍ sem fram fór í dag.  Afmælismótið kemur næst Íslandsmóti að styrkleika.  Óhætt er að segja að keppendur KA hafi staðið sig frábærlega er árangur þeirra var eftirfarandi:
Elín Jóhanna Bjarnadóttir:  Elín var að keppa á sínu fyrsta móti.  Hún keppti í -63kg. flokki og stóð sig mjög vel þrátt fyrir að vinna ekki til verðlauna, enda var þessi flokkur gríðar sterkur og Elín sú eina sem ekki var með svarta beltið.
Helga Hansdóttir:  Helga keppti einnig í -63kg. flokki og sigraði glæsilega.  Hún keppti einnig í opnum flokki og var langléttasti keppandinn þar.  Þrátt fyrir það vann hún til bronsverðlauna í þeim flokki.
Aron Daði Bjarnason:  Hann keppti í -73kg. flokki.  Hann var hársbreidd frá því að komast á verðlaunapall, en tapaði á síðustu stundu í baráttunni um að komast í undanúrslit.
Breki Bernharðsson:  Breki var að keppa á sínu fyrsta fullorðinsmóti en hann er Íslandsmeistari í flokki 15-16 ára.  Fyrirfram var talið að þetta yrði erfitt mót fyrir Breki en hann eyddi öllum vangaveltum um slíkt og varð í 2. sæti sem er frábær árangur.
Adam Brands Þórarinsson: Hann keppti í -81kg. flokki.  Hann var í 3. sæti en var hársbreidd frá því að komast í úrslit sem var markmiðið.
Valbjörn Helgi Viðarsson:  Hann vann brons í +90kg flokki.  Hann keppti einnig í opnum flokki en komst ekki á pall þar þrátt fyrir góða baráttu.
Ingþór Örn Valdimarsson: Ingþór keppti í +90kg. flokki og opnum flokki.  Ingþór átti sitt besta mót til þessa og sigraði glæsilega í báðum flokkunum.  Ingþór er núna í sínu besta formi á ferlinum og verður spennandi að sjá hvernig veturinn þróast hjá honum.

Samtals unnu þessir 7 keppendur því til 3 gullverðlauna, 1 silfurverðlauna og 3 bronsverðlauna sem er frábær árangur.



Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is