Tilnefningar til íþróttamanns KA 2019

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak
Tilnefningar til íþróttamanns KA 2019
Filip íþróttamaður KA 2018 (mynd: Þórir Tryggva)

Átta framúrskarandi einstaklingar hafa verið tilnefndir sem íþróttamaður KA fyrir árið 2019. Deildir félagsins útnefna bæði karl og konu úr sínum röðum til verðlaunanna. Á síðasta ári var Filip Pawel Szewczyk valinn íþróttamaður KA en hann fór fyrir karlaliði KA í blaki sem vann alla titla sem í boðu voru.

Eftirfarandi einstaklingar eru tilnefndir í ár

Alexander Heiðarsson, júdó

Alexander á 12 Íslandsmeistaratitla undir beltinu en í janúar tók hann þátt í æfingabúðum EJU Olympic Training Camp í Austurríki sem eru alþjóðlegar æfingabúðir og með þeim sterkustu sem haldnar eru ár hvert. Alexander lenti í 3. sæti á Reykjavík International Games eða RIG sem voru haldnir í janúar. Í maí keppti hann á Smáþjóðaleikunum sem haldir voru í Svartfjallalandi. Þar náði hann góðum árangri eða þriðja sæti.

Sumarið 2019 tók hann þátt í æfingabúðum sem og Evrópumótaröð þar sem bestu júdómenn heims taka þátt. Alexander hefur verið valinn í landsliðið í mörg ár og nánast undantekningarlaust hefur hann unnið til verðlauna á mótum erlendis. Fyrir utan að vera magnaður íþrótta- og keppnismaður þá er Alexander mjög hógvær og jarðbundinn strákur sem er alltaf tilbúinn til þess að aðstoða og kenna öðrum.

Áki Egilsnes, handknattleikur

Áki var þriðji markahæsti leikmaður Olís-deildar karla leiktíðina 2018-2019 með 133 mörk. Áki hefur leikið 8 leiki á þessu tímabili og skorað í þeim 39 mörk. Hann er algjör lykilleikmaður í KA-liðinu sem var hársbreidd frá sæti í úrslitakeppni á sínu fyrsta ári í efstu deild í langan tíma. Áki er reglulega valinn í lið umferðarinnar í Olís deildinni og var valinn besta hægri skyttan á síðari hluta síðustu leiktíðar.

Áki er auk þess fastamaður í landsliði Færeyja sem hefur bætt sig mikið á undanförnum árum. Fyrir utan það að vera frábær íþróttamaður hefur Áki aðlagast lífinu á Akureyri vel. Hann hefur starfað í Lundarskóla meðfram íþróttamennskunni undanfarin tvö ár og er gríðarlega vel liðinn starfskraftur, bæði af samstarfsfólki sem og krökkunum í skólunum. Hann er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur KA.

Berenika Bernat, júdó

Berenika er ellefufaldur Íslandsmeistari í júdó og núverandi Íslandsmeistari í U-21 árs flokki. Þá hefur hún keppt á erlendri grundu með góðum árangri og er landsliðskona. Berenika hefur æft júdó af mikilli alúð síðan hún var ung að aldri. Hún hefur seinustu árin dafnað og þroskast mikið í júdósamfélaginu, verið valin í landsliðið og keppt á erlendri grundu fyrir hönd Íslands með góðum árangri.

Fyrir utan að vera mjög góð í sinni íþrótt þá er Berenika einnig mjög dugleg að gefa af sér á æfingum og hjálpa öðrum sem eru styttra komnir til að aðlagast æfingaumhverfinu. Hún er jákvæður og hvetjandi æfingafélagi, er ávallt félagi sínu til sóma á mótum og er frábær fyrirmynd fyrir alla iðkendur.

Elfar Árni Aðalsteinsson, knattspyrna

Elfar Árni var valinn besti leikmaður KA á lokahófi knattspyrnudeildar árið 2019 þar sem liðið fagnaði besta árangri félagsins í knattspyrnu karla frá árinu 2002. Elfar Árni fór fyrir markaskorun KA liðsins en hann gerði 13 mörk í 21 leik í Pepsi Max deildinni og var aðeins einu marki frá markahæsta manni deildarinnar. Auk þess að vera með frábært markanef þá er mikil barátta aðalsmerki Elfars Árna sem gefur ávallt allt sitt á vellinum.

Elfar Árni er framúrskarandi íþróttamaður og mikil fyrirmynd fyrir yngri leikmenn félagsins. Ásamt því að vera mikill markahrókur inná vellinum er hann íþróttakennari í Lundarskóla og öll hans framkoma og hegðun til fyrirmyndar.

Hulda Bryndís Tryggvadóttir, handknattleikur

Hulda Bryndís er einn af burðarásum í liði KA/Þórs í Olís-deild kvenna í handbolta. Á síðustu leiktíð spilaði hún alla leiki liðsins og gerði í þeim 51 mark þegar liðið endaði í 5. sæti þrátt fyrir að vera nýliði í deildinni og voru þar með hársbreidd frá sæti í úrslitakeppninni um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

Hún hefur leikið 10 leiki og skorað 27 mörk á yfirstandandi tímabili í Olísdeild kvenna. Hulda leikur stórt hlutverk sóknar- og varnarlega í liði KA/Þórs sem er að berjast í efri helmingi deildarinnar. Þá er hún reglulega valin í æfingahóp B-landsliðs Íslands.

Hulda er frábær íþróttakona sem er flott fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, bæði innan sem utan vallar. Hún er góður liðsfélagi sem hefur lagt mikið á sig til þess að geta stundað sína grein af krafti.

Hulda Elma Eysteinsdóttir, blak

Elma á langan blakferil að baki og var fyrirliði KA sem vann í fyrsta skipti í sögunni alla mögulega titla síðasta tímabils, er liðið varð deildar-, bikar- og Íslandsmeistari. Elma fór í vor ásamt A-landsliði Íslands á smáþjóðleikana sem haldnir voru í Svartfjallalandi og stóð sig með stakri prýði.

Síðasta vetur fór Elma ásamt kvennaliði KA á alþjóðlegt mót félagsliða Norður-Evrópu, NEVZA, sem haldið var í Svíþjóð. Þar atti liðið kappi við sterkustu lið Norður-Evrópu. Elma hefur um árabil verið ein fremsta blakkona landsins og sýndi nýyfirstaðið tímabil það með sanni, er hún fór fyrir liði KA með stakri prýði. Elma er gríðarlega góður liðsfélagi og fyrirliði sem alltaf er hægt að leita til og geta yngri leikmenn án nokkurs vafa litið upp til hennar.

Karen María Sigurgeirsdóttir, knattspyrna

Karen María er þrátt fyrir ungan aldur algjör lykilleikmaður í Pepsi Max deildarliði Þórs/KA. Hún lék 21 leik með Þór/KA í efstu deild og bikarkeppni sumarið 2019 og skoraði í þeim tvö mörk. Stór hluti af sterku liði sem var að keppast á toppi allra keppna sumarið 2019.

Þá vann hún sér inn sæti í U-19 ára landsliði Íslands þar sem hún og stöllur hennar komust áfram úr undanriðli EM. Hún lék 7 landsleiki með liðinu og skoraði tvö mörk. Karen María er ung og efnileg knattspyrnukona sem getur verið stolt af sínum ferli hingað til. Hún er einnig góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og kemur að þjálfun hjá félaginu.

Miguel Mateo Castrillo, blak

Mateo fór fyrir liði KA sem vann alla mögulega titla síðasta tímabils, en þá varð liðið deildar-, bikar- og Íslandsmeistari ásamt því að vinna titilinn Meistarar meistaranna í upphafi núverandi tímabils. Mateo var stigahæsti maður deildarinnar og var auk þess í úrvalsliði deildarinnar á yfirstöðnu tímabili. Mateo var ekki eingöngu leikmaður karlaliðsins heldur stýrði hann einnig kvennaliði KA sem vann einnig alla þá titla sem í boði voru. Besti árangur KA í sögunni og ekkert lið hefur áður unnið alla titla bæði í karla- og kvennaflokki samtímis.

Síðasta vetur fór Mateo ásamt meistaraflokki karla á alþjóðlegt mót félagsliða Norður-Evrópu, NEVZA. Þar áttust við sterkustu félagslið Norður-Evrópu og skemmst frá því að segja að KA vann liðið sem sigraði að lokum mótið, en önnur óhagstæð úrslit gerðu það að verkum að þeir lentu ekki í efstu sætum mótsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is