Tilnefningar til íþróttafólks KA árið 2020

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak

Nú þegar árið 2020 líður senn undir lok er komið að því að gera þetta óhefðbundna íþróttaár upp. Fyrr á árinu voru gerðar breytingar á útnefningu íþróttamanns KA og verður nú í fyrsta skiptið valinn íþróttakarl og íþróttakona félagsins.

Tilnefningar til íþróttakarls KA árið 2020

Blakkarl ársins 2020 - Miguel Mateo Castrillo

Mateo var stigahæsti leikmaður Mizuno deildarinnar og var auk þess í úrvalsliði deildarinnar á yfirstöðnu tímabili. Mateo er ekki eingöngu leikmaður karlaliðs KA heldur skilaði hann deildarmeistaratitli með kvennaliðinu sem þjálfari en vegna covid var engin bikarkeppni né úrslitakeppni.

Nú í haust vann hann ofurbikar BLÍ með KA og var þar mjög atkvæðamikill. Hann stóð sig einnig vel á strandblaksmótum í sumar, en hann tók þátt á tveimur mótum þar sem hann vann gull og brons. Mateo er íþróttinni til mikilla sóma og er mikil fyrirmynd allra þeirra sem stunda íþróttina, hann gefur mikið af sér bæði innan sem utan vallar. Hann er bæði elskaður og dáður af yngri iðkendum sem horfa upp til hans á sama tíma og þau reyna að vera jafn góð og hann.

Handboltakarl ársins 2020 - Andri Snær Stefánsson

Andri Snær hefur þjónað Akureyringum í fjöldamörg ár sem einn skemmtilegasti og frambærilegasti handboltamaður bæjarins. Undanfarin ár hefur hann borið fyrirliðaband KA í Olísdeild karla og borið það með sæmd. Andri Snær er frábær leikmaður sem gefur alltaf mikið af sér til liðsfélaga sinna og allra í kringum íþróttina. Leikgleði og góðmennska skín í gegnum Andra Snæ sem hefur þrátt fyrir að vera "aðeins" 34 ára gamall spilað með meistaraflokki í 17 ár.

Andri Snær var fyrirliði KA sem endaði í 10. sæti Olísdeildar karla á síðasta tímabili (þegar það var flautað af). Skoraði 41 mark í 20 leikjum. Er í dag annar af tveimur fyrirliðum liðsins sem stendur í 7. sæti Olísdeildar á núverandi tímabili. Fyrir utan afrek inn á handboltavellinum undanfarin áratug og rúmlega það þá hefur Andri tekið að sér þjálfun kvennaliðs KA/Þór þar sem hann stýrði þeim til sigurs í leik um Meistara Meistaranna gegn Fram í haust. Þar áður þjálfaði Andri ungmennalið KA og 3. flokk félagsins með miklum glæsibrag.

Júdókarl ársins 2020 - Adam Brands Þórarinsson

Þó að tímabilið hafi verið stutt hjá júdófólki þá tókst Adam að vinna brons á Reykjavík International Games og gull á norðurlandsmóti. Hann hefur sýnt færni á júdóvellinum sem fáir hafa yfir að ráða og fórnfýsi á æfingum til að gefa af þekkingu sinni og reynslu, sem gerir alla í kringum hann betri bæði
innan vallar sem utan.

Knattspyrnukarl ársins 2020 - Brynjar Ingi Bjarnason

Brynjar Ingi var valinn besti leikmaður KA í knattspyrnu árið 2020 af leikmönnum, stjórn og stuðningsmönnum. Brynjar Ingi lék stórt hlutverk í Pepsi-deildarliði KA sem endaði tímabilið í 7. sæti og lék hann alla leiki liðsins í deild og bikar. Brynjar Ingi, sem er ósérhlífinn leikmaður, lék í hjarta varnarinnar sem fékk aðeins á sig 21 mark í 18 leikjum. Aðeins tvö lið fengu á sig færri mörk og tapaði KA aðeins þremur leikjum sumarið 2020.

Brynjar Ingi er hreinn og beinn drengur sem að hefur vaxið mikið sem knattspyrnumaður undanfarin ár. Hann hefur alla burði til þess að verða einn besti miðvörður Íslands en Brynjar er aðeins 21 árs gamall. Hann hefur sýnt að þolinmæði og elja eru einkenni sem að ungir knattspyrnumenn þurfa að
hafa til þess að ná langt.

Tilnefningar til íþróttakonu KA árið 2020

Blakkona ársins 2020 - Gígja Guðnadóttir

Gígja Guðnadóttir er einn af burðarásum meistaraflokks kvenna í blaki sem á undanförnum árum hefur átt í góðu gengi. Gígja sem er fyrirliði liðsins og einn af máttarstólpum þess var lykilleikmaður þegar liðið tryggði sér Deildarmeistaratitilinn á síðasta tímabili. Þá spilar Gígja einnig mikilvægt hlutverk í A-landsliði Íslands en liðið keppti á Novotel Cup í Lúxemborg í janúar 2020 en þar vann liðið til bronsverðlauna.

Gígja er fyrirmynd allra ungmenna og er ekki bara góður íþróttamaður heldur einnig fyrirmyndar einstaklingur innan sem utan vallar. Hún gefur mikið af sér, stundar heilbrigt líferni og er ábyrg og metnaðarfull í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Handboltakona ársins 2020 - Ásdís Guðmundsdóttir

Ásdís Guðmundsdóttir er ein af burðarásum í góðu og spennandi liði KA/Þórs sem keppir í Olís-deild kvenna í handknattleik. Ásdís er drífandi liðsmaður, bæði innan sem utan vallar. Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur spilað í meistaraflokki félagsins í 7 ár.

Skoraði 64 mörk í 16 leikjum fyrir KA/Þór tímabilið 2019/2020 í Olísdeild kvenna og 6 mörk í 3 leikjum það sem af er núverandi tímabili. Spilaði til úrslita með KA/Þór í bikarkeppni HSÍ vorið 2020 og varð Meistarari meistaranna haustið 2020. Ásdís var valin í B-landslið Íslands og tók þar áður þátt á HM í Ungverjalandi með U21 árs landsliði Íslands.

Ásdís er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins. Hún þjálfar yngstu flokkana hjá Þór og hefur alltaf gefið mikið af sér utan vallar. Hún er einnig mikil baráttukona fyrir kvennaíþróttum og jafnrétti kynjanna í allri umfjöllun og umgjörð.

Júdókona ársins 2020 - Berenika Bernat

Berenika lagði upp með að taka þetta tímabil með trompi sem ein efnilegasta og fremsta júdókona landsins. Með ósérhlífni var hún komin í hörku keppnisformi og tilbúin í að taka tímabilið með trompi.

Það var ekki við ráðið hvernig utanaðkomandi öfl léku júdófólk grátt, en þá skiptir mestu hvernig við hlúum að þeim sem standa okkur næst, og í Bereniku eiga ungir iðkendur mikla fyrirmynd sem sýnir þeim hversu langt metnaður og vinnusemi geta komið þeim, í júdó og öðrum hliðum lífsins.

Knattspyrnukona ársins 2020 - Karen María Sigurgeirsdóttir

Karen María er lykilleikmaður í Pepsideildarliði Þór/KA í efstu deild sem endaði í sjöunda sæti. Hún er stór hluti af sterku liði Þór/KA. Hún er einkar efnileg, enda ung að árum og getur náð langt í sinni grein. Hún tók þátt í 15 leikjum Þór/KA sumarið 2020 og skoraði í þeim þrjú mörk.

Þá lék Karen þrjá landsleiki með U19 ára landsliði Íslands í vor. Karen er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur hjá KA og Þór. Hún er jákvæð og drífandi og hefur einnig komið að þjálfun yngri flokka hjá KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is