Tilnefningar til íþróttafólks KA 2021

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak
Tilnefningar til íþróttafólks KA 2021
Glæsilegir fulltrúar félagsins

Fimm karlar og fimm konur eru tilnefnd til íþróttakarls og íþróttakonu KA fyrir árið 2021. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru afhent hvoru kyni og er mikil ánægja með þá breytingu. Deildir félagsins tilnefndu aðila úr sínum röðum og verður valið kunngjört á 94 ára afmæli félagsins í byrjun janúar.

Tilnefningar til íþróttakonu KA árið 2021

Hekla Dís Pálsdóttir - Júdó

Hekla hóf aftur keppni á árinu eftir nokkurt hlé. Það var þó ekki að sjá á henni þar sem hún stóð sig afskaplega vel á öllum þeim mótum sem hún tók þátt í. Hekla átti sterkt Íslandsmeistaramót fullorðinna þar sem hún vann silfur í bæði sínum flokki og opnum flokki, sem er virkilega gott afrek. Hún keppti svo fyrir hönd Íslands á Opna Finnska meistaramótinu í Október. Hekla er ómissandi á hverju móti bæði sem keppandi og á hliðarlínunni fyrir aðra keppendur þar sem hún styður og hvetur af áfergju.

Karen María Sigurgeirsdóttir – fótbolti

Karen María byrjaði árið á að vera valin í æfingahóp A-landsliðsins og í kjölfarið tók hún þátt í Kjarnafæðismótinu og Lengjubikarnum með Þór/KA. Í sumar spilaði hún alla leiki Þór/KA og var markahæsti leikmaður liðsins með 5 mörk. Eftir fimm tímabil með Þór/KA ákvað Karen María loks að skipta yfir í Breiðablik. Með Breiðablik tók hún þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og mætti þar stórliðunum Real Madrid, PSG og WFC Kharkiv.

Paula del Olmo Gómez - blak

Blakdeildin tilnefnir Paulu del Olmo Gomes sem íþróttakonu KA. Paula átti frábært tímabil síðasta vetur, þar náði hún að skora flest stig í Mizuno deildinn eða 351 stig einnig var hún ein af þeim efstu í móttöku og blokk stigum. Þetta gerir Paulu að besta alhliðar leikmanni deildarinnar. Á síðasta tímabili leiddi Paula lið KA í úrslita leik Kjörísbikarsins þar sem KA endaði í 2. sæti, eftir að hafa unnið alla titla árið áður. Paula náði einnig á árinu 3. sæti á Íslandsmótinu í strandblaki. Paula er einnig frábær fyrirmynd innan sem utan vallar sem hefur laðað að fjölda iðkenda síðustu ár.

Rakel Sara Elvarsdóttir – handbolti

Rakel Sara Elvarsdóttir, aðeins 18 ára gömul, átti stórkostlegt tímabil með KA/Þór þegar hún og stöllur hennar lönduðu öllum fjórum stóru titlunum sem í boði eru, Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar ásamt því að verða meistarar meistaranna. Rakel vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína inná vellinum í Olísdeildinni en hún skoraði meðal annars 11 mörk úr 12 skotum í úrslitaleik við Fram um deildarmeistaratitilinn og skoraði mörg mikilvæg mörk í úrslitakeppninni gegn ÍBV og Val. Rakel var valin efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar 2021 og var valin í fyrsta sinn í A-landsliðið núna í lok nóvember. Þá fór hún fyrir góðu liði U19 ára landsliðs Íslands á EM í Makedóníu í sumar.

Rut Jónsdóttir - handbolti

Rut Jónsdóttir er lykilleikmaður í meistaraliði KA/Þór sem er handhafi allra titla sem í boði eru á Íslandi í handknattleik kvenna. Hún var valin besti leikmaður Olísdeildar kvenna en Rut kom eins og stormsveipur inn í deildina eftir 12 ára atvinnumannaferil. Rut er ekki bara stórkostlegur leikmaður heldur lyftir hún samherjum sínum einnig upp á hærra plan og er heldur betur vel að verðlaununum komin. Ekki nóg með að vera valin besti leikmaðurinn á lokahófi HSÍ þá fékk hún einnig Sigríðarbikarinn auk þess að vera valin besti sóknarmaðurinn. Rut er lykilleikmaður í íslenska A-landsliðinu.

Tilnefningar til íþróttakarls KA árið 2021

Alexander Arnar Þórisson - blak

Blakdeildin tilnefnir Alexander Arnar Þórisson sem íþróttakarl KA. Alexander var einn af burðarstólpum KA liðsins á síðasta tímabili sem og fyrri ár. Alexander hefur unnið alla titla með KA sem í boði eru á Íslandi undanfarin ár. Á síðasta tímabili náði lið KA í úrslit um íslandmeistartitilinn en hafnaði í 2 sæti. Eftir tímabilið var Alexander valinn í lið ársins í stöðu miðju og hafði þar betur við marga góða leikmenn. Undanfarin ár hefur Alexander átt sæti í landsliði í íslands en engin verkefni hafa verið þar vegna Covid. En hann var valinn í æfingahóp fyrir komandi verkefni landsliðsins um áramótin.

Árni Bragi Eyjólfsson - handbolti

Árni Bragi Eyjólfsson var besti leikmaður KA tímabilið 2020-2021 í Olísdeild karla. Hann fór fyrir liðinu sem komst í fyrsta sinn í úrslitakeppni frá því að KA hóf að leika aftur handknattleik í karlaflokki. Þá var hann valinn besti leikmaður Olísdeildar karla en Árni Bragi átti stórbrotið tímabil og má með sanni segja að hann hafi hrifið hug og hjörtu KA-manna í vetur. Árni rakaði heldur betur til sín verðlaununum á lokahófi HSÍ en hann varð markakóngur deildarinnar, var valinn besti sóknarmaður, fékk Valdimarsbikarinn og uppskar Háttvísisverðlaun HSÍ.

Brynjar Ingi Bjarnason - fótbolti

Brynjar Ingi Bjarnason er tilnefndur af knattspyrnudeild KA til Íþróttamanns KA. Brynjar Ingi er aðeins 22 ára gamall miðvörður sem lék ellefu leiki fyrir KA í sumar í efstu deild karla. Frammistaða Brynjars Inga vakti heldur betur mikla athygli en hann er virkilega góður knattspyrnumaður sem sóknarmenn annarra liða óttast. Í júlí var Brynjar Ingi Bjarnason seldur frá KA til Lecce í ítölsku B-deildinni og þaðan til Norska stórliðsins Vålerenga.

Brynjar er fyrsti KA-maðurinn síðan Þorvaldur Örlygsson var seldur, sem er seldur beint frá KA í erlent lið. Auk þess var Brynjar Ingi valinn í A-landslið karla á árinu, þar sem hann fékk óvænt tækifæri en sýndi þar gríðarlega góða leiki og er búinn að vinna sér fast sæti í byrjunarliði landsliðsins með frábærum frammistöðum. Hann lék hvorki fleiri né færri en 10 A-landsliðsleiki á árinu og skoraði tvö mörk!

Gylfi Rúnar Edduson - Júdó

Gylfi færðist upp um aldurs og þyngdarflokk í byrjun árs og getur það oft tekið tíma að aðlagast því. Hann tók áskoruninni hins vegar fagnandi og komst á pall í öllum keppnum hérlendis, vann þar á meðal silfur á Íslandsmeistaramóti unglinga og gull á haustmóti JSÍ. Gylfi kláraði svo gott ár með að keppa fyrir hönd Íslands á opna Finnska meistaramótinu í Október. Ofan á góðan árangur er Gylfi gefandi iðkandi og bætir sig og aðra á hverri æfingu.

Steinþór Már Auðunsson - fótbolti

Steinþór Már Auðunsson er tilnefndur fyrir hönd knattspyrnudeildar KA til Íþróttakarls KA en Steinþór Már er markvörður, fæddur árið 1990. Steinþór kom í KA fyrir tímabilið og er saga hans hálfgerð öskubuskusaga. Steinþór er uppalinn í KA en spilaði með Magna, Völsung, Dalvík/Reyni og Þór á meistaraflokksárunum. Steinþór kom í KA fyrir tímabilið 2021 og var hugsaður sem varamarkvörður. Hinsvegar fer ekki alltaf allt eins og það á að fara og Steinþór hóf leik í marki KA í upphafi tímabils og stóð sig frábærlega, frá fyrsta leik til hins síðasta. Steinþór fékk mikið lof frá íslenskum fótboltasérfræðingum og var besti leikmaður KA sem rétt missti af þriðja sætinu í Pepsi-deildinni. KA endaði í fjórða sæti deildarinnar og fékk á sig næst fæst mörkin í deildinni, aðeins 20 mörk í 22 leikjum og var það Steinþóri oft að þakka.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is