Tilnefningar til Böggubikarsins 2021

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak
Tilnefningar til Böggubikarsins 2021
Sjö öflugir iðkendur tilnefndir í ár

Böggubikarinn verður afhendur í áttunda skiptið á 94 ára afmæli KA í janúar en alls eru sjö ungir og öflugir iðkendur tilnefndir fyrir árið 2021 frá deildum félagsins.

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Tilnefnd í ár eru eftirfarandi:

Blakdeild - Amelía Ýr Sigurðardóttir

Blakdeildin tilnefnir Amelíu Ýr Sigurðardóttir til Böggubikarsins í ár. Framfarir hjá henni síðustu ár hafa verið gríðarlega. Amelía var fyrirliði og þungamiðjan í KA B sem spila í fyrstu deildinni á síðasta tímabili. Hún var valin í U17 landsliðinu sem fór til Finnlands og tók þátt í NEVZA. Varð það í fyrsta skiptið sem Ísland vinnur gullið á svona stóru móti. Einnig er Amelía frábær fyrirmynd fyrir yngstu iðkendur bakdeildinnar. Hún er dugleg að mæta á æfingar og leggur sig 100 prósent fram á hverri æfingu sem endurspeglar góðan árangur og miklar framfarir.

Blakdeild - Draupnir Jarl Kristjánsson

Blakdeild KA tilnefnir Draupnir Jarl Kristjánsson til Böggubikarsins þetta árið. Draupnir hefur undanfarin ár bætt sig gríðarlega mikið. Hann mætir á allar æfingar með því markmiði aðverða betri og leggur hart á sjálfan sig til þess að verða það. Hann gerir einnig aukaæfngar til þess að bæta sig. Hann náði þeim góða árángri að fara út með u19 landsliðinu á NEVZA mót í Finnlandi þar sem liðið stóð sig með príði. Einnig varð hann Íslandsmeisari í strandblaki í 2. deild. Ekki nóg með að hann sé metnaðarfullur á æfingum er hann mjög duglegur í starfi deildarinnar að öllu leiti.

Handknattleiksdeild - Hildur Lilja Jónsdóttir

Hildur Lilja er 17 ára örvhent skytta. Þrátt fyrir ungan aldur er hún farin að æfa og spila með Íslandsmeistaraliði KA/Þór og verið í kringum yngri landslið HSÍ. Hún hefur nú þegar gert sín fyrstu mörk bæði efstu deild á Íslandi og einnig í Evrópukeppni og eiga þau eftir að verða talsvert fleiri. Hildur er þó leikmaður sem hugsar fyrst og fremst um að gera liðsfélaga sína betri. Hún hefur virkilega gott auga fyrir samspili með öðrum leikmönnum sem nýtist liðinu mjög á vellinum.

Hildur leggur mjög hart að sér við æfingar og hefur gríðarlegan vilja til að verða betri. Hún mætir á allar æfingar og gerir aukalega við þær. Alltaf tilbúin að hlusta og leita ráða til þess að verða betri sem gerir það að verkum að hún bætir sig gríðarlega mikið. Auk þess að æfa af krafti þjálfar hún yngri flokka hjá félaginu og hefur staðið sig mjög vel í því enda frábær fyrirmynd.

Handknattleiksdeild - Skarphéðinn Ívar Einarsson

Skarphéðinn Ívar Einarsson er 16 ára stórskytta sem strax á fyrsta ári í framhaldsskóla er búinn að stimpla sig inn í meistaraflokkslið KA og einn af framtíðarmönnum KA í handbolta. Skarphéðinn er leikmaður sem hefur einstaklega gott viðhorf sem aðrir gætu lært af. Hann  elskar handbolta og mætir á hverja einustu æfingu með það að markmiði að bæta sig og hafa gaman. Á æfingunum er hann einbeittur, hlustar vel og fer svo eftir því sem sagt er við hann, sem svo skilar sér í frábærum frammistöðum hans með sínum liðum. Hann lætur lítið trufla sig og tekst á við allar áskoranir með jákvæðu og yfirveguðu hugarfari.

Frábært hugarfar hans hefur gert það að verkum að á undanförnum árum hefur hann tekið gríðarlegum framförum og til að mynda orðinn lykilmaður í U-17 ára landsliði Íslands þó svo að þar spili hann með leikmönnum sem eru árinu eldri. Það verður gaman að fylgjast með Skarpa á næstu árum ef hann heldur áfram á sömu braut því hann hefur sýnt að honum eru allir vegir færir.

Júdódeild - Birkir Bergsveinsson

Birkir hefur verið að vaxa og dafna í ár, bæði sem keppandi og iðkandi. Hann tekur þátt í öllum mótum sem eru í boði og tekur áskorunum fagnandi. Hann vann brons á haustmóti JSÍ þar sem hann keppti í aldursflokki fyrir ofan sig og fór á Opna Finnska meistaramótið fyrir Íslands hönd í sínum aldurs og þyngdarflokki. Birkir gefur mikið af sér á æfingum, alltaf til í að læra og gefa af sér. Hann hjálpar einnig til við að þjálfa yngri flokka þegar þarf.

Knattspyrnudeild - Iðunn Rán Gunnarsdóttir

Iðunn er öflugur og vel spilandi miðvörður og miðjumaður. Hún vann sig inn í æfingahóp meistaraflokks eftir að hafa bætt sig jafnt og þétt síðustu ár og spilaði hún sína fyrstu leiki í efstu deild í sumar. Iðunn Rán var valinn í U16 og U17 ára lið Íslands þar sem hún spilaði fjóra leiki á árinu. Með U17 komst hún og liðsfélagar hennar áfram í milliriðil EM. Í 3. flokk var hún lykilmaður í liði sem vann bæði Stefnumót KA og ReyCup ásamt því að vera í toppbaráttunni á Íslandsmótinu. Það verður áhugarvert að fylgjast með henni á komandi sumri þar sem hún hefur burði til að sér inn enn stærra hlutverk í meistaraflokknum.

Knattspyrnudeild - Kári Gautason

Kári er snarpur og áræðinn bak- og kantmaður. Hann er duglegur og gefst aldrei upp en Kári er einnig mikill KA-maður, liðsmaður og það er alltaf stutt í grínið og brosið. Kári vann sig inn í æfingahóp meistaraflokks með góðri frammistöðu og spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild í sumar. Það verður gaman að fylgjast með honum á komandi sumri þar sem hann verður lykilmaður í 2. flokk ásamt því að banka enn frekar á dyrnar hjá meistaraflokknum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is