Tilnefningar til Böggubikarsins 2019

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak
Tilnefningar til Böggubikarsins 2019
Verðlaunahafar síðasta árs (mynd: Þórir Tryggva)

Átta ungir iðkendur hafa verið tilnefndir til Böggubikarsins fyrir árið 2019. Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi.

Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna.

Á síðasta ári fengu þau Dagur Gautason (handknattleik) og Karen María Sigurgeirsdóttir (knattspyrna) verðlaunin eftirsóttu.

Tilnefndir í ár eru eftirfarandi

Arnór Ísak Haddsson, handknattleikur

Þrátt fyrir ungan aldur er Arnór kominn inn í æfingahópinn hjá meistaraflokki karla. Þá hefur Arnór spilað geysilega vel fyrir ungmennalið KA í Grill-66 deildinni og hefur skorað í 10 leikjum 46 mörk. Að auki spilar hann í 3. flokki félagsins og er þar algjör lykilmaður. Þá er Arnór mikill félagsmaður og er ávallt tilbúinn að aðstoða við starf handknattleiksdeildar.

Arnór hefur átt fast sæti í unglingalandsliðum Íslands og í sumar fór hann á ásamt félögum hans í U-17 ára landsliðinu á EM sem haldið var í Aserbaídsjan og enduðu þar í 4 sæti. Arnór er gríðarlega ósérhlífinn og fer fram með baráttu og drifkrafti. Á þessu tímabili hefur hann tekið gríðarlegum framförum og bætt sig mikið.

Birgir Baldvinsson, knattspyrna

Birgir er fyrirliði 2. flokks KA sem leikur í A-deild Íslandsmótsins auk þess sem hann er í æfingahóp meistaraflokks. Birgir er einn besti fyrirliði sem hefur verið í yngriflokkum KA þar sem hann nær afar vel til allra sem eru með honum í liði. Hann hefur þann eiginleika að gera aðra leikmenn á vellinum betri með nærveru sinni. Hann er því vel af tilnefningunni kominn enda topp KA-drengur.

Gísli Marteinn Baldvinsson, blak

Gísli Marteinn er 17 ára Siglfirðingur sem hefur æft með meistaraflokki KA í blaki undanfarin tvö tímabil. Gísli er efnilegur blakari og hefur undanfarið fengið að spreyta sig talsvert með meistaraflokksliði KA. Gísli fór í haust í landsliðsverkefni með U19 ára landsliði Íslands til Finnlands þar sem hann spilaði alla leiki liðsins á alþjóðlegu móti Norður-Evrópuþjóða, NEVZA.

Gísli er ekki eingöngu öflugur leikmaður en hann er einnig ákaflega mikilvægur utan vallar, þar sem hann er frábær fulltrúi yngri leikmanna liðsins og stendur sig afbragðsvel í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.

Gylfi Rúnar Edduson, júdó

Gylfi Rúnar er 16 ára og æfir með fullorðinsflokki júdódeildar KA. Hann hefur verið að æfa síðan hann var lítill drengur og hefur náð mjög góðum árangri á árinu sem og síðustu ár. Hann hefur meðal annars verið valinn í landsliðið tvisvar á þessu ári og keppti til að mynda á Norðurlandamótinu þar sem honum tókst að vinna tvær glímur og hafna í sjöunda sæti. Á Budo Nord, sem er eitt sterkasta unglingamót Norðurlandanna, gerði hann það sama og vann tvær glímur Að auki hefur hann verið að sanka að sér verðlaunum hér heima hann tók sem dæmi tvö gull á afmælismóti JSÍ bæði í U18 og U21 árs.

Gylfi er virkilega duglegur að æfa og er því frábær fyrirmynd fyrir yngri og eldri iðkendur júdódeildarinnar. Vegna vinnusemi sinnar þá má segja með vissu að hann mun ná mjög langt innan vallar sem utan.

Hekla Dís Pálsdóttir, júdó

Hekla Dís hefur verið að æfa júdó í þó nokkur ár en í dag er hún orðin 18 ára og hefur hún unnið sér inn brúna beltið. Hekla Dís er fyrirmyndar íþróttanemandi sem leggur sig ávallt fram á æfingum. Hún er dugleg að gefa af sér til yngri iðkenda og er frábær fyrirmynd innan sem utan vallar.

Undanfarin ár hefur hún verið að standa sig mjög vel á mótum en á árinu var hún valin í landsliðsferð til Svíþjóðar og stóð sig með prýði en hún kom heim með tvö brons. Hún var einnig íslandsmeistari í U21 árs. Jákvæðni hennar og drifkraftur mun koma henni langt áfram í júdóinu og í lífinu.

Jóna Margrét Arnarsdóttir, blak

Jóna Margrét er 16 ára uppalin KA kona sem hefur, þrátt fyrir ungan aldur, æft með meistaraflokki KA í blaki allt frá árinu 2016, þá 12 ára gömul. Hún hefur átt fast sæti í liði KA undanfarin tvö ár. Jóna var í liði KA sem vann alla mögulega titla síðasta tímabils, en þá varð liðið deildar-, bikar- og Íslandsmeistari ásamt því að vinna titilinn Meistarar meistaranna í upphafi núverandi tímabils. Auk þess keppti lið KA á alþjóðlegu móti félagsliða Norður-Evrópu, NEVZA, í Svíþjóð, þar sem att var kappi við sterkustu félagslið Norður-Evrópu.

Jóna fór til Danmerkur í haust með U-17 ára landsliði Íslands og spilaði þar alla leiki liðsins á alþjóðlegu móti Norður-Evrópuþjóða, NEVZA. Ásamt því hefur Jóna æft með A-landsliði Íslands og var á dögunum valin í lokahóp liðsins sem fer á Novotel Cup í Lúxemborg í janúar. Það er deginum ljósara að Jóna á framtíðina fyrir sér á blakvellinum, en hún er ekki eingöngu sterkur leikmaður, heldur gríðarlega mikilvæg fyrir liðsheildina.

Karen María Sigurgeirsdóttir, knattspyrna

Karen María tók þátt í öllum deildarleikjum Þór/KA sem endaði í 4. sæti í Pepsi Max deildarinnar á nýliðnu sumari og komst í undanúrslit í Borgunarbikarnum. Þá vann hún sér inn sæti í U-19 ára landsliði Íslands þar sem hún og stöllur hennar komust áfram úr undanriðli EM. Hún lék 7 landsleiki með liðinu og skoraði tvö mörk. Árið var því mjög flott hjá þessum duglega og áræðna leikmanni. 

Rakel Sara Elvarsdóttir, handknattleikur

Rakel Sara er ein af efnilegustu hornamönnum Íslands í dag. Hennar helsti styrkur er gríðarlega mikill hraði og sprengikraftur, er frábær í hraðupphlaupum og góður varnarmaður. Hún hefur tekið miklum framförum á árinu en þrátt fyrir ungan aldur er hún fastamaður í meistaraflokksliði KA/Þórs og hefur skorað í 24 mörk á núverandi tímabili í Olísdeildinni.

Í sumar fór hún með U-17 ára landsliðinu á Evrópumót þar sem hún stóð sig frábærlega og var verðlaunuð með sæti í úrvalsliði mótsins. Rakel er gríðarlega samviskusöm, æfir mikið og er með skýr markmið sem hún vinnur eftir. Þá er hún einnig góður liðsmaður og flottur félagsmaður fyrir félagið okkar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is