KA júdókonur með fjögur brons á NM

Júdó
KA júdókonur með fjögur brons á NM
KA stelpurnar í efstu röð. Á myndina vantar Alex.

Norðurlandameistaramótið í júdó var haldið um helgina og átti júdódeild KA fjóra keppendur á því móti að auki sem Anna Soffía þjálfari og landsliðsþjálfari dró fram gallann fyrir sveitakeppnina.

Alexander Heiðarsson keppti í -60 kg flokki í undir 21 árs. Hann byrjaði af krafti og sigraði fyrstu glímu glæsilega en því miður var þetta ekki dagurinn hans og náði hann ekki á pall í þetta skipti, en hann hefur verið á palli á nánast öllum mótum sem hann hefur keppt á erlendis. 

Berenika Bernat keppti í -63 kg flokki undir 18 ára og í undir 21 árs. Hún stóð sig mjög vel en þetta er annað Norðurlandameistaramótið hennar. Hún vann glímur í báðum aldursflokkum en komst því miður ekki á pall þar. Hún sýndi mjög góða takta og tekur fullt heim til að vinna með.

Hekla Dís Pálsdóttir keppti í -70 kg flokki í undir 18 ára og undir 21 árs. Þetta er fyrsta Norðurlandameistaramótið hennar. Fyrri dagurinn var ekki hennar en hún tók svo brons í undir 21 árs flokknum. Sjálfstraustið kikkaði inn og stóð hún sig mjög vel, sigraði glímuna á glæsilegu ipponi.

Edda Ósk Tómasdóttir keppti í -70 kg flokki Veterans (30 ára og eldri). Hún glímdi ótrúlega vel og var þetta með hennar bestu glímum og nældi hún sér í brons, en Edda sýnir og sannar alla daga að aldur er afstæður í júdó.

Mótið endaði svo á blandaðri sveitakeppni þar sem Berenika var valin til þess að keppa í -70 og Anna Soffía Víkingsdóttir í +70. Fyrsta glíman hennar Bereniku var við Emilie Sook sem hefur verið að taka verðlaun á A mótum í fullorðins, mætti segja að þetta hafi verið langbesta glíman hennar á mótinu en hún stóð ansi lengi í þeirri Dönsku. Anna Soffía dró fram gallann eftir að hafa verið að þjálfa allan laugardaginn og hluta úr sunnudegi. Hún óð í stelpurnar og vann tvær glímur, þar á meðal Norðurlandameistarann í -78. Um tíma var eins og að þakið ætlaði að rifna af húsinu en íslenska sveitin tók brons og því koma allar KA stelpur heim með brons um hálsinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is