Flýtilyklar
Vel heppnaður Midtjylland skóli
KA og danska stórliðið FC Midtjylland héldu flottan knattspyrnuskóla á KA-svæðinu dagana 11.-14. júlí í samstarfi við Niceair. Strákar og stelpur fædd 2006 til 2013 höfðu tækifæri á að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og var þátttakan frábær.
Samstarfið við Midtjylland skiptir okkur KA-menn miklu máli en akademían þeirra er ein allra besta í Skandinavíu og því ómetanlegt að geta boðið okkar krökkum upp á æfingar frá aðalþjálfurum Midtjylland.
Árgangar 2006-2009
Knattspyrnuskólinn var flott og skemmtilegt uppbrot frá hinum hefðbundnu æfingum en auk þess að gefa krökkunum okkar góð ráð og setja upp fjölbreyttar æfingar voru skemmtilegar uppákomur inn á milli. Til að mynda var mögnuð dansupphitun einn daginn sem heldur betur sló í gegn.
Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir úr skólanum
Þá voru einnig fyrirlestrar um hinar ýmsu hliðar sem koma að því að verða framúrskarandi leikmaður en sálfræðingurinn Kristján Gunnar Óskarsson ræddi meðal annars um kvíða og hvernig hægt sé að yfirstíga hann.
Samstarf KA og Midtjylland er afar mikilvægt og flott fyrir okkar starf og við erum gríðarlega jákvæð og ánægð með skólann í ár og stefnum klárlega á að halda áfram að starfa með Midtjylland og þeirra öfluga teymi.