Veisla í Víkinni fyrir leik morgundagsins

Fótbolti
Veisla í Víkinni fyrir leik morgundagsins
Mikilvæg stig í húfi í Víkinni (mynd: Þ.Tr)

KA sækir Víkinga heim á morgun, laugardag, klukkan 17:00 í 18. umferð Pepsi deildar karla. KA liðið er í sérstakri stöðu fyrir leik en liðið á enn bæði möguleika á Evrópusæti sem og að falla. Heimamenn í Víking eru í 9. sæti aðeins þremur stigum á eftir KA og því um sex stiga leik að ræða.

KA vann ótrúlegan 4-1 sigur þegar liðin mættust fyrr í sumar fyrir norðan og gerðu Archi Nkumu, Ásgeir Sigurgeirsson, Hallgrímur Jónasson og Hallgrímur Mar Steingrímsson mörk okkar liðs.

Það verður mikið húllumhæ í kringum leikinn en Víkingar bjóða KA mönnum að taka þátt í svokölluðu Tailgate en þar er fólk hvatt til að mæta á völlinn með fargrill, útilegustóla og borð. Planið er svo að grilla og hafa gaman til að byggja upp skemmtilega stemningu fyrir leik.

Á staðnum verður grill, auk þess sem aðgangur verður að grilli fyrir þá sem geta ekki komið með sitt eigið. Þá verður eitthvað meira í boði, hvetjum að sjálfsögðu alla okkar stuðningsmenn sem ætla á leikinn að taka þátt í þessu skemmtilega framtaki Víkinga.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is