Flýtilyklar
Valur gekk frá Þór/KA í síðari hálfleik
Þór/KA sótti Val heim í kvöld í fyrstu umferð Pepsi Max deildar kvenna í fótboltanum. Báðum liðum er spáð góðu gengi í sumar og mátti því búast við hörkuleik eins og venja hefur verið í viðureignum liðanna undanfarin ár.
Valur 5 - 2 Þór/KA
1-0 Hlín Eiríksdóttir ('6)
1-1 Karen María Sigurgeirsdóttir ('25)
1-2 Andrea Mist Pálsdóttir ('33)
2-2 Fanndís Friðriksdóttir ('47)
3-2 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('53, sjálfsmark)
4-2 Hlín Eiríksdóttir ('69)
5-2 Hlín Eiríksdóttir ('85)
Heimakonur í Val hófu leikinn betur og ekki leið á löngu uns Hlín Eiríksdóttir kom þeim yfir að Elín Metta Jensen hafði náð að koma boltanum fyrir mark Þórs/KA með miklum dugnaði. Áfram hélt Valsliðið að stýra leiknum og allt útlit fyrir að þær myndu bæta við næsta marki.
Það kom því sem þruma úr heiðskýru lofti þegar Karen María Sigurgeirsdóttir jafnaði metin með stórkostlegu marki fyrir utan teig sem fór rakleiðis í skeytin. Staðan orðin 1-1 og stelpurnar skyndilega komnar aftur inn í leikinn.
Í kjölfarið kom mikill kraftur í okkar lið og var þó nokkur hætta upp við Valsmarkið sem endaði með því að Andrea Mist Pálsdóttir skoraði laglegt mark við hornfánann en hún smurði boltann út við fjærstöngina yfir Söndru Sigurðardóttur í marki Vals.
Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan því 1-2 fyrir Þór/KA. Enn var þó langt í land með að klára leikinn og það tók Fanndísi Friðriksdóttur ekki langan tíma að jafna metin í síðari hálfleik eftir að hún fékk of mikinn tíma í teignum.
Stuttu síðar varð Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir hálfgert samstuð hjá henni og Bryndísi Láru í markinu. Síðari hálfleikur var því miður algjör einstefna og eina spurningin var í raun hve stór sigur Vals yrði í kjölfar þess að þær náðu forystunni.
Hlín Eiríksdóttir tvöfaldaði forystu heimaliðsins á 69. mínútu með góðu skallamarki og útlitið orðið ansi svart. Hlín fullkomnaði þrennu sína stuttu fyrir leikslok með öðru skallamarki og lokatölur því 5-2 fyrir Val.
Svekkjandi niðurstaða en þó verður að viðurkennast að Valsliðið átti sigurinn skilinn. Spilamennska okkar liðs í síðari hálfleik var alls ekki ásættanleg og gegn jafn sterku liði og Valur hefur á að skipa er ljóst að þá mun fara illa. Þetta var þó bara fyrsti leikur sumarsins og ljóst að stelpurnar munu læra af leiknum og vonandi að þær nái betri og stöðugri frammistöðu í næsta leik.