Undanúrslit í húfi á miðvikudaginn

Fótbolti
Undanúrslit í húfi á miðvikudaginn
Er bikarævintýri í vændum? (mynd: Þórir Tryggva)

KA tekur á móti Ægi í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á Greifavellinum á miðvikudaginn klukkan 18:00. Sæti í undanúrslitum bikarsins er því í húfi og ljóst að við KA-menn þurfum að fjölmenna á völlinn og styðja strákana áfram í næstu umferð.

Þetta er í þrettánda skiptið sem KA kemst alla leið í 8-liða úrslit bikarkeppninnar en í sjö skipti af þeim tólf sem félagið hefur leikið í 8-liða úrslitum hefur unnist sigur og sæti í undanúrslitum keppninnar orðið að veruleika.


KA vann frækinn 2-1 sigur á Fjölni í síðasta leik félagsins í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar

Það er orðið þó nokkuð síðan að við KA-menn höfum komist á þetta stig bikarsins en það gerðist síðast árið 2015 er KA lék í næstefstu deild. Þá gerðu strákarnir sér lítið fyrir og slógu út efstudeildarlið Fjölnis með 2-1 sigri á Akureyrarvelli en þar áður hafði KA einnig slegið út efstudeildarlið er Breiðablik var lagt að velli með 0-1 sigri í framlengdum leik.

KA komst í fyrsta skiptið í 8-liða úrslit sumarið 1982 eftir 3-1 sigur á liði ÍBÍ í 16-liða úrslitunum. En lengra komumst við ekki í það skiptið því í kjölfarið kom 1-3 tap gegn Víkingum á Akureyrarvelli.

Mótherjar okkar að þessu sinni eru Ægismenn úr Þorlákshöfn og má með sanni segja að afar spennandi leikur sé framundan. Liðin hafa aldrei mæst innbyrðis og á sama tíma og KA leikur í deild þeirra bestu eru Ægismenn í 2. deild.

Það má þó reikna með spennandi viðureign þar sem gestirnir munu selja sig dýrt enda er þetta án nokkurs vafa einn stærsti leikur sem lið Ægis hefur leikið. Þetta er nefnilega í fyrsta skiptið í sögunni sem félagið kemst áfram í 8-liða úrslit bikarkeppninnar.


Mætingin hefur verið til fyrirmyndar hjá okkur og við ætlum að halda því áfram á miðvikudaginn! (mynd: Sævar Geir)

Á leið sinni í leikinn hafa Ægismenn slegið út Lengjudeildarlið Fylkis, 2. deildarlið Hötts/Hugins, 3. deildarlið KFS og í fyrstu umferð slógu þeir út 4. deildarlið KFB. Á sama tíma hefur KA slegið út 2. deildarlið Reynis Sandgerði og svo efstudeildarlið Fram en báðir leikir unnust 4-1.

Það er fátt skemmtilegra en að upplifa bikarævintýri og það þekkjum við KA-menn heldur betur, enda hefur árið 2022 boðið upp á bikarúrslitaleiki í handbolta og blaki hjá félaginu og alveg ljóst að við ætlum okkur að upplifa það sama í fótboltanum. Sæti í undanúrslitum er í húfi á miðvikudaginn og ekki nokkur spurning að við þurfum að leggja okkur öll fram til að það verði raunin.

Miðasalan er hafin í Stubb, hlökkum til að sjá ykkur í stúkunni, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is