Flýtilyklar
Þór/KA tekur á móti Selfoss á morgun
Það er gríðarleg spenna á toppnum í Pepsi deild kvenna en aðeins munar tveimur stigum á Breiðablik og Þór/KA þegar fjórir leikir eru eftir af deildinni. Þór/KA tekur á morgun, laugardag, á móti Selfoss og er ljóst að stelpurnar þurfa á sigri að halda til að halda pressu á Blikum.
Selfoss er í 6. sætinu með 16 stig og hefur liðið kroppað stig af toppliðunum, þar á meðal okkar liði er þau mættust fyrr í sumar á Selfossi. Liðin gerðu þá markalaust jafntefli í frekar bragðdaufum leik en miðað við spilamennsku stelpnanna í síðasta leik þar sem þær unnu 9-1 sigur á FH má bóka það að leikur morgundagsins verður ekki markalaus.
Topplið Breiðabliks leikur svo á sunnudag gegn botnliði FH og má ætla að Blikar sæki þar 3 stig. Það er því gríðarlega mikilvægt að stelpurnar leggi Selfoss til að halda í við Kópavogsliðið en í næstu umferð mætast Þór/KA og Breiðablik einmitt.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á Þórsvöll á morgun og styðja stelpurnar í þessum mikilvæga leik sem hefst klukkan 16:00, áfram Þór/KA!