Thomas Danielsen í þjálfarateymi KA

Fótbolti

Knattspyrnudeild KA hefur fengið Thomas Danielsen til liðs við þjálfarateymi meistaraflokks karla en Thomas er gríðarlega fær afrekssálfræðingur. Thomas þekkir vel til félagsins en hann var áður í þjálfarateymi KA sumarið 2022 og mun hann án nokkurs vafa lyfta starfi okkar upp á enn hærra plan.

Thomas vinnur í Danmörku sem afrekssálfræðingur þar sem hann vinnur með dönskum toppíþróttamönnum að ná sem bestum árangri. Hann starfar með atvinnumönnum í fótbolta, handbolta, íshokký, golfi sem og ólympískum íþróttamönnum á hæsta stigi.


Thomas með Valdimar Loga Sævarssyni en Thomas vinnur bæði með hópinn í heild sinni sem og með einkasamtölum við leikmenn

Hann hefur verið að aðstoða liðið það sem af er sumri en hann er um þessar mundir á Akureyri þar sem hann hefur verið að taka leikmenn í einkasamtöl sem og að ræða við hópinn í heild sinni. Thomas tengist KA í gegnum Hallgrím Jónasson þjálfara KA en þeir kynntust og unnu saman er Hallgrímur lék sem atvinnumaður í Danmörku.

Eins og áður segir vann Thomas í kringum lið KA sumarið 2022 en þar áður hafði hann komið norður með virkilega áhugaverða og flotta fyrirlestra fyrir þjálfara, leikmenn og foreldra og ákaflega ánægjulegt að við getum fengið hann aftur inn í okkar metnaðarfulla og flotta starf.


Thomas á hliðarlínunni í 4-2 sigurleik KA á Fylki (mynd: Þórir Tryggvason)

Það er gríðarlega ánægjulegt að við í KA njótum krafta þessa mikla fagmanns og bjóðum við Thomas hér aftur hjartanlega velkominn norður!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is