Þakkir til stuðningsmanna og velunnara KA

Fótbolti
Þakkir til stuðningsmanna og velunnara KA
Mögnuðu sumri að ljúka (mynd: Egill Bjarni)

Sagt er að haustið sé tími uppskerunnar. Nú hefur veturinn formlega gengið í garð og enn eigum við KA menn eftir að spila einn leik í deild hinna bestu. Við erum nú, byrjun vetrar, að uppskera eftir langt og strangt keppnistímabil.

Við höfum nú þegar tryggt okkur keppnisrétt í Evrópukeppninni að ári, en með sigri í lokaleik okkar á morgun, laugardaginn 29. október kl. 13, á móti Val, getum við tryggt okkur 2. sætið í deildinni. Hvernig sem þó þessi leikur fer, er KA að ná sínum næst besta árangri í knattspyrnu frá upphafi. Það ríkir mikil gleði í okkar herbúðum og við fögnum þessum glæsta árangri okkar.

Ég vil hrósa öllu því fólki sem hefur komið af starfi okkar, bæði inná vellinum sem og utan hans. Leikmenn, þjálfarar, starfsfólk KA og knattspyrnudeildar hafa lagt sig allt fram til að þess að koma knattspyrnudeildinni á þann stað sem við nú stöndum á og fögnum.

En árangri sem þessum verður ekki náð nema með óþrjótandi stuðningi stuðningsmanna, styrktaraðlia og annara velunnara félagsins. Við ykkur vil ég segja, kærar þakkir fyrir ykkar framlag til þessa árangurs. Án ykkar hefðum við ekki náð þessum áfanga og stuðningur ykkar í blíðu sem stríðu er okkur ómetanlegur og langt í frá sjálfsagður. Ég þakka ykkur stuðninginn í ár og óska þess og vona að við megum halda áfram að eiga ykkur að á komandi ári. Ég vona jafnframt að fleiri velunnarar sláist í hópinn þannig að við getum mætt enn öflugri til leiks að ári, hér heima sem og í Evrópuboltanum. Það er jú alltaf gaman í KA en þó sérstaklega þegar vel gengur eins og nú.

Það fer ekki framhjá neinum sem kemur á KA svæðið að við erum að byggja upp svæðið allt. Akureyrarbær hefur lagt af stað í þá nauðsynlegu og gleðilegu fjárfestingu, að tryggja okkur Akureyringum fullkominn knattspyrnuvöll sem stenst allar kröfur KSÍ um umgjörð á hæsta stigi. Með uppbyggingu á nauðsynlegum búningsklefum fyrir allar deildir KA mun aðstaðan á KA svæðinu verða með því besta sem gerist á landinu. Í vor lyftu fjölmargir sjálfboðaliðar því grettistaki að gera alla umgjörð í kringum æfingavöll okkar KA manna þannig úr garði að við gátum spilað leiki okkar í sumar á KA svæðinu. Það er ánægjulegt að metnaður Akureyrarbæjar og sjálboðastarf og árangur okkar KA manna í íþróttastarfinu fari saman og auki þannig hróður okkar samfélags hér á landi. Fyrir þetta erum við þakklát.

Ég vil að lokum hvetja sem flesta til að mæta á lokaleikinn okkar sem og lokahóf knattspyrnudeildar sem haldið verður um kvöldið í Sjallanum og fagna þannig góðum árangri ársins.

Fyrir hönd stoltrar stjórnar knattspyrnudeildar KA
Hjörvar Maronsson, formaður


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is