Sveinn Margeir valinn í U-21 landsliðið

Fótbolti

Sveinn Margeir Hauksson var í dag valinn í U-21 árs landslið Íslands sem undirbýr sig fyrir umspilsleiki gegn Tékklandi fyrir lokakeppni EM 2023. Þetta er frábært tækifæri fyrir okkar mann og ansi spennandi verkefni framundan.

Sveinn Margeir hefur farið á kostum með KA liðinu í sumar og vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína. Hann hefur tekið þátt í 24 leikjum KA í deild og bikar í sumar og gert í þeim fjögur mörk. Frá árinu 2020 hefur hann leikið 58 keppnisleiki fyrir KA en þar áður var hann í lykilhlutverki í liði Dalvíkur/Reynis.

Fyrri leikur Íslands og Tékklands í umspilinu fer fram á Víkingsvelli þann 23. september og sá síðari í Ceske Budojovice í Tékklandi 27. september, en báðir leikir hefjast klukkan 16:00 að íslenskum tíma.

U-21 árs landslið Íslands í knattspyrnu karla hefur tvívegis komist í lokakeppni EM, árin 2011 og 2021. Það verður gaman að sjá hvort að íslensku strákunum tekst að bæta þriðja Evrópumótinu við á næstu dögum en við óskum Sveini Margeiri innilega til hamingju með valið sem og góðs gengis í þessu mikilvæga og spennandi verkefni, áfram Ísland!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is