Flýtilyklar
Stórsigur Þórs/KA á ÍBV (myndaveisla)
Þór/KA tók á móti ÍBV í 12. umferð Pepsi Max deildar kvenna um helgina. Það vantaði nokkra stóra pósta í okkar lið en þrátt fyrir það voru stelpurnar staðráðnar í að sækja sigurinn enda baráttan í deildinni gríðarlega jöfn og ljóst að hvert stig mun skipta sköpum þegar upp er staðið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Þrátt fyrir nokkrar ágætistilraunir tókst hvorugu liðinu að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik en það átti svo sannarlega eftir að breytast í þeim síðari. Hulda Ósk Jónsdóttir gerði það strax eftir upphafsflautið og á 53. mínútu var hún búin að bæta við öðru marki. Þetta voru fyrstu mörk Huldu í sumar og fögnuðurinn eðlilega mikill.
Caroline Van Slambrouck minnkaði hinsvegar muninn skömmu síðar og útlit fyrir mikla baráttu síðasta hálftímann. En stelpurnar voru svo sannarlega ekki á þeim buxunum og Agnes Birta Stefánsdóttir skoraði magnað mark með skoti þó nokkuð fyrir utan teig.
Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að koma sér aftur inn í leikinn en stelpurnar vörðust af mikilli fagmennsku og á 82. mínútu refsaði María Catharina Gros þeim með góðu marki áður en Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir rak endahnútinn á 5-1 sigur okkar liðs.
Gríðarlega mikilvægur sigur í hús og setur stelpurnar í bílstjórasætið í baráttunni um 3. sætið þegar tveir þriðju af mótinu er búinn.