Skúli Ágústar heiðursgestur á bikarúrslitaleiknum

Fótbolti
Skúli Ágústar heiðursgestur á bikarúrslitaleiknum
Skúli á skrifstofu Hölds (mynd: Hörður Geirsson)

Skúli Gunnar Ágústsson er heiðursgestur KA á úrslitaleik KA og Víkings í Mjólkurbikar karla á Laugardalsvelli nk. laugardag, 21. september.

Skúli fæddist 1943 á Þórshöfn á Langanesi en fluttist ungur að árum með fjölskyldu sinni til Akureyrar og hefur búið hér allar götur síðan. Hann ólst upp í Innbænum og á Eyrinni. Í Innbænum keppti Skúli fyrir KA á skíðum. Á Eyrinni var á þessum árum höfuðvígi Þórsara og þar snerist allt um knattspyrnu. Skúli fór að spila fótbolta með félögum sínum þar, sem flestir voru í Þór, en hann hélt tryggð við KA og spilaði fótbolta undir merkjum KA og síðar einnig ÍBA.


Við VW-bjölluna með skráningarnúmerinu 1313 sumarið 1962. Mynd: Gunnlaugur P. Kristinsson/Minjasafnið á Akureyri.

Á unglingsárunum komu strax í ljós afburða hæfileikar Skúla í knttspyrnu. Hann naut leiðsagnar þjálfara á borð við Karl M. Guðmundsson, Ríkharð Jónsson og Heinz Marotzke, sem þjálfaði bæði yngri flokka KA og Þórs, en síðan kepptu leikmenn beggja liða undir merkjum ÍBA – Íþróttabandalags Akureyrar – í sameiginlegu liði sem Marotzke stýrði.

Fyrsta leikinn í meistaraflokki ÍBA spilaði Skúli sextán ára gamall árið 1959 en eftir sem áður spilaði hann einnig með meistaraflokki KA, m.a. í miklum baráttuleikjum við Þór í Akureyrarmótum.

Snemma komu í ljós afburða hæfileikar Skúla á knattspyrnuvellinum. Hann spilaði stöðu afturliggjandi framherja, hafði einstaka yfirsýn á vellinum, var útsjónarsamur og teknískur og betri en margur annar að sjá glufur í vörnum andstæðinganna. Ófá glæsileg mörkin skoraði hann á ferlinum.


Þriðji flokkur KA árið 1957. Standandi frá vinstri: Kári Árnason, Níels Jónsson, Skúli Ágústsson, Stefán Jónasson, Viðar Sveinsson og Birgir Hermannsson. Krjúpandi frá vinstri: Sigurður Víglundsson, Stefán Tryggvason, Ívar Sigmundsson, Sveinn Jónsson og Árni Sigurbjörnsson.

Ásamt nokkrum öðrum leikmönnum úr ÍBA-liðinu var Skúli ítrekað í pressuliðinu svokallaða sem Samtök íþróttafréttamanna völdu til þess að spila æfingaleiki við landsliðið. Í fyrsta skipti var Skúli valinn í A-landslið Íslands í leik gegn Norðmönnum árið 1962. Hann átti síðan eftir að vera í A-landsliðinu í þremur leikjum gegn Írum árið 1962 og 1965, sumarið 1964 í þremur vináttuleikjum gegn Skotum, Bermúdamönnum og Finnum, gegn Dönum árið 1970 og síðasti A-landsleikurinn var gegn Frökkum í París 1971. Einnig spilaði Skúli B-landsleiki við Færeyinga 1962 og 1964.


Meistaraflokkur KA í knattspyrnu árið 1963. Standandi frá vinstri: Jakob Jakobsson, Sveinn Kristdórsson, Jón Stefánsson, Birgir Hermannsson, Þormóður Einarsson og Frímann Frímannsson. Krjúpandi frá vinstri: Kári Árnason, Haukur Jakobsson, Einar Helgason, Skúli Ágústsson og Árni Sigurbjörnsson. Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Skúli var einn af lykilmönnunum í liði ÍBA sem hampaði bikarmeistaratitli, þeim eina sem lið frá Akureyri hefur unnið. Á þessum tíma var bikarkeppnin ekki spiluð fyrr en að loknu Íslandsmóti og því var komið fram á haust þegar bikarleikirnir voru spilaðir. Árið 1969 komst ÍBA alla leið í úrslitaleikinn gegn Skagamönnum, sem spilaður var 30. nóvember á Melavellinum í Reykjavík.


Bikarmeistarar ÍBA í Sjálfstæðishúsinu að kvöldi 7. desember 1969. Frá vinstri: Viðar Þorsteinsson, Pétur Sigurðsson, Sævar Jónatansson, Samúel Jóhannsson, Þormóður Einarsson, Kári Árnason, Magnús Jónatansson, Valsteinn Jónsson, Gunnar Austfjörð, Gunnlaugur Björnsson, Eyjólfur Ágústsson, Einar Helgason og Skúli G. Ágústsson. Mynd: Páll A. Pálsson/Ljósmyndastofa Páls

Aðstæður til knattspyrnu voru afleitar, á meðan á leiknum stóð var suðvestan rok og völlurinn var einn forarpyttur. Gera þurfti hlé á leiknum meðan haglél gekk yfir. Skagamenn höfðu vindinn í bakið í fyrri hálfleik og komust yfir. Í seinni hálfleik hafði ÍBA vindinn í bakið og Eyjólfur Ágústsson, bróðir Skúla, jafnaði leikinn rétt fyrir lok venjulegs leiktíma. Þá var hins vegar orðið svo rökkvað að ekki þótti forsvaranlegt að framlengja leikinn. Það varð því úr að annar úrslitaleikur var spilaður 7. desember. Veður var þá betra en vallaraðstæður varasamar, völlurinn frosinn og svell á stórum hluta hans. Skagamenn komust yfir í fyrri hálfleik og bættu við marki í upphafi seinni hálfleiks.

En leikmenn ÍBA lögðu ekki árar í bát og Magnús Jónatansson minnkaði muninn og Eyjólfur Ágústsson jafnaði leikinn og þannig lauk honum í venjulegum leiktíma. Í framlengingu skoraði Kári Árnason sigurmark ÍBA og bikarinn fór norður, þar sem mikill mannfjöldi tók á móti bikarmeisturunum á Akureyrarflugvelli.


Skúli í félagstreyju Early Sunrise og Þórarinn B. Jónsson liðsstjóri leggja á ráðin fyrir leik Early Sunrise gegn heimamönnum í Mývatnssveit.

Ekki aðeins var Skúli G. Ágústsson afburða góður knattspyrnumaður. Hann var lengi í fremstu röð skautahlaupara á Íslandi og öflugur íshokkímaður. Og borðtennis stundaði hann um tíma og hellti sér um miðjan aldur í golfið, þar sem hann varð m.a. Íslandsmeistari öldunga og spilaði fjórum sinnum í öldungalandsliði Íslands í golfi.

Og til almennrar hreysti- og sálubótar stundaði Skúli árum saman skallabolta, að ógleymdri þátttöku í hinu goðsagnakennda liði fyrrum knattspyrnukappa á Akureyri, „Early Sunrise“, sem spilaði fjölda leikja við lið úr nágrannabyggðum Akureyrar.


Golfið hefur lengi fylgt Skúla, m.a varð hann Íslandsmeistari í flokki eldri kylfinga í golfi, 55 ára og eldri, með og án forgjafar.

Árið 1974 stofnaði Skúli með bræðrum sínum, Birgi og Vilhelm, Bílaleigu Akureyrar – Höld og lögðu þeir bræður þar grunn að afar farsælum rekstri félags sem hefur æ síðan vaxið og dafnað. Jafnan hafa þeir bræður verið kallaðir hinir akureyrsku Kennedybræður. Þeir ráku fyrirtækið til ársins 2003 er þeir seldu það til núverandi eigenda.

Skúli hefur alla tíð verið einarður KA-maður og það hefur hann í áratugi sýnt í verki. Hann lætur sig ekki vanta í stúkuna til þess að hvetja KA-liðið áfram og í gegnum tíðina hefur hann og Bílaleiga Akureyrar sýnt ómældan stuðning við félagið.

Skúli G. Ágústsson er verðugur heiðursgestur KA á úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli nk. laugardag, 21. september.

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is