Orðsending knattspyrnudeildar vegna vallarmála

Fótbolti

Að gefnu tilefni vill knattspyrnudeild KA taka eftirfarandi fram. Heimavöllur okkar Greifavöllurinn, er enn ekki tilbúinn til notkunar fyrir lið okkar, sem nú berst í toppbaráttu Pepsi Max deildar karla. Við höfðum miklar væntingar til þess að geta spilað næsta leik okkar gegn KR á heimavelli okkar, en því miður ganga þær væntingar okkar ekki eftir.

Völlurinn var tekinn út í vikunni af forsvarsmanni KSÍ og varð niðurstaðan, að betur færi á því að næsti leikur okkar gegn KR, fari fram á gervigrasvellinum á Dalvík, líkt og aðrir heimaleikir okkar á keppnistímabilinu til þessa.

Við erum félögum okkar og bæjarbúum á Dalvík innilega þakklát fyrir það hversu vel þau hafa tekið á móti okkur og hversu vel þau hafa stutt okkur í heimaleikjum KA þar. Dalvíkingar eiga einn besta gervigrasvöll á Íslandi og geta svo sannarlega verið stoltir af þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað á undanförnum árum. 

Knattspyrnuíþróttin er vinsælasta og fjölmennasta íþróttagrein landsins. Mikill áhugi er á greininni, í öllum aldurshópum. Við Akureyringar sjáum það sérstaklega þessa vikuna, en bærinn er nú sóttur heim af þúsundum Íslendinga sem ýmist keppa á knattspyrnumótum sem hér eru haldin, eða fylgjast með sínu fólki keppa á mótunum. Við Akureyringar tökum sem fyrr vel á móti öllu þessu fólki og viljum að gestir bæjarins geti notið alls þess sem hann hefur uppá að bjóða og að aðstæður séu allar þær bestu fyrir keppendur mótanna.

Því er ekki að leyna, að nokkuð er í að keppnisaðstaða okkar KA manna standist samanburð við önnur knattspyrnufélög í fremstu röð á Íslandi.  Við erum ánægð með það að Akureyrarbær hefur sýnt stöðu okkar ríkan skilning og hefur fyrir nokkru undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu nýs keppnisvallar með stúku á félagssvæði KA. Við væntum þess að skammt sé í að hægt sé að undirrita samning um þessa framkvæmd, enda er búið að auglýsa breytt deiliskipulag KA svæðisins sem tekur mið af þessari uppbyggingu. Félags- og stuðningsmenn KA  bíða óþreyjufullir eftir því að við getum fært iðkendum knattspyrnu á Akureyri og gestum okkar á komandi knattspyrnumótum þau tíðindi, að framkvæmdir við nýjan keppnisvöll hefjist. Vonandi leggjast allir á eitt um að það gerist á næstu vikum eða mánuðum.

Að lokum, leikurinn við KR fer fram mánudaginn 5. júlí á Dalvíkurvelli og hefst hann kl. 19:15. Leikurinn er jafnframt kveðjuleikur Brynjars Inga Bjarnasonar með KA að sinni, en hann mun ganga til liðs við ítalska liðið U.S. Lecce á næstu dögum. Við hvetjum ykkur öll til að gera ykkur ferð til Dalvíkur næstkomandi mánudag og styðja vel við bak okkar manna í toppbaráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Áfram KA!

F.h. knattspyrnudeildar KA
Hjörvar Maronsson, formaður


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is