Flýtilyklar
Myndaveislur frá frábærum sigri á KR
KA tók á móti KR-ingum í fyrsta leik úrslitakeppninnar í Bestu deildinni á Greifavellinum í gær en gríðarlega mikið var í húfi fyrir okkar lið enda hörð barátta um sæti í Evrópukeppni og alveg klárt að þangað ætla strákarnir okkar sér.
Þeir Þórir Tryggvason, Egill Bjarni Friðjónsson og Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndarar voru allir á leiknum og bjóða upp á myndaveislur frá leiknum hér fyrir neðan. Þökkum þeim kærlega fyrir framtakið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum
Leikir KA og KR í sumar hafa ekki beinlínis verið opnir og mikið fyrir augað og var svipað uppi á teningunum í gær. Bæði lið vörðust vel og gekk erfiðlega að koma sér í alvöru færi og var staðan markalaus í hálfleik.
En það breyttist þó í upphafi síðari hálfleiks þegar Þorri Mar Þórisson kom sér í góða stöðu og renndi boltanum fyrir mark gestanna þar sem Pontus Lindgren varð fyrir því óláni að renna boltanum í eigið net og KA því komið í 1-0.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Í kjölfarið reyndu gestirnir hvað þeir gátu til að jafna metin en komust áfram lítt áleiðis gegn frábærri vörn KA-liðsins og þar fyrir aftan var Kristijan Jajalo með allt á hreinu. Undir lok leiks munaði svo minnstu að strákunum tækist að bæta við marki en inn vildi boltinn ekki og gríðarlega mikilvægur 1-0 sigur í höfn.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
KA er því komið í algjöra kjörstöðu í baráttunni um sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð en þegar liðið á fjóra leiki eftir eru strákarnir 14 stigum á undan Val í 4. sætinu sem á eftir fimm leiki. Með Bikarsigri Víkinga á laugardaginn eru nú allar líkur á að efstu þrjú sæti Bestu deildarinnar gefi þátttöku í Evrópukeppninni.
Næsti leikur er á sunnudaginn þegar KA tekur á móti toppliði Breiðabliks en með sigrinum er KA nú fimm stigum á eftir Blikum sem eiga þó leik til góða.