Myndaveislur er strákarnir tryggðu bikarúrslit

Fótbolti
Myndaveislur er strákarnir tryggðu bikarúrslit
Bikarúrslit annað árið í röð! (mynd: Sævar Geir)

KA tryggði sér sæti í úrslitum Mjólkurbikarsins með stórkostlegum 3-2 sigri á Valsmönnum á Greifavellinum á dögunum. Þetta verður í fimmta skiptið sem KA leikur til úrslita í bikarnum en þar mæta strákarnir liði Víkings og er þetta annað árið í röð sem liðin mætast í úrslitunum.

Þeir Þórir Tryggvason og Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndarar voru á leiknum og bjóða hér til myndaveislu frá sigrinum góða. Kunnum þeim félögum bestu þakkir fyrir framtakið.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris frá leiknum

Sigur KA á liði Vals var sanngjarn og áttu strákarnir klárlega einn sinn allra besta leik í sumar. Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA yfir strax á 6. mínútu og hefði staðan hæglega getað verið 2-0 er Patrick Pedersen jafnaði metin fyrir Val á 39. mínútu.

En Jakob Snær Árnason kom strákunum aftur yfir með baráttumarki eftir hornspyrnu rétt fyrir hlé og staðan því 2-1 er liðin gengu til búningsherbergja.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum

Daníel Hafsteinsson gerði svo stórkostlegt mark á 62. mínútu en Birkir Már Sævarsson minnkaði muninn í 3-2 skömmu síðar. Þrátt fyrir nokkur góð tækifæri tókst strákunum ekki að bæta við mörkum en það kom ekki að sök og ákaflega sætur 3-2 sigur staðreynd og sæti í bikarúrslitum tryggt.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is