Myndaveislur er KA tryggði 2. sætið

Fótbolti
Myndaveislur er KA tryggði 2. sætið
Frábært sumar að baki! (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti Val í lokaumferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu á laugardaginn í blíðskaparveðri á Greifavellinum. Fyrir leikinn var KA í 2. sæti deildarinnar og alveg ljóst að strákarnir ætluðu sér sigur gegn sterku liði Vals og um leið tryggja silfurverðlaun sem er besti árangur KA frá árinu 1989.

Ljósmyndararnir Þórir Tryggvason og Sævar Geir Sigurjónsson voru báðir á svæðinu og bjóða til myndaveislu hér fyrir neðan. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framtakið og ykkur kæru stuðningsmenn fyrir magnaðan stuðning í allt sumar.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og voru gestirnir líklegri án þess þó að skapa of mikla hættu við mark KA liðsins. Allt breyttist þó á 30. mínútu er Valsmenn gerðu sig seka um klaufaleg mistök upp við mark sitt og Daníel Hafsteinsson fékk boltann fyrir opnu marki. Lasse Petry Andersen í vörn gestanna skutlaði sér fyrir skot Daníels og varði með höndum.

Niðurstaðan var því vítaspyrna og beint rautt spjald á Lasse. Hallgrímur Mar Steingrímsson fór á punktinn og skoraði af öryggi og ljóst að verkefni Valsmanna yrði ansi erfitt manni færri. Hallgrímur Mar skoraði svo öðru sinni á 40. mínútu þegar hann þrumaði boltanum utan teigs í netið og gerði þá útum leikinn.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum

KA leiddi því 2-0 í hálfleik og varð síðari hálfleikur í raun formsatriði fyrir bæði lið að klára og urðu mörkin ekki fleiri. Á sama tíma vann Breiðablik lið Víkings og því ljóst að KA hampaði þar með 2. sæti deildarinnar með fimm stigum meira en Víkingar og varð mikill sigurfögnuður að leik loknum.

Strákarnir okkar fengu silfurverðlaun fyrir frábæra framgöngu sína í sumar og mun KA leika í Evrópukeppni á næstu leiktíð en það verða fyrstu Evrópuleikir KA í knattspyrnu í 20 ár eða frá árinu 2003.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is