Flýtilyklar
Myndaveisla frá jafntefli KA og Vals
KA og Valur skildu jöfn 1-1 í stórleik á Greifavellinum í gær en liðin eru í harðri baráttu í efri hluta Bestu deildarinnar. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom mikið líf í þeim síðari þar sem KA liðið reyndi hvað það gat til að tryggja sér öll stigin.
Strákarnir okkar höfðu góð tök á leiknum og voru farnir að þjarma verulega að Valsmönnum í síðari hálfleik þegar þeir gleymdu sér allsvakalega. Eftir hornspyrnu á 64. mínútu blésu hreinlega allir leikmenn KA til sóknar með þeim afleiðingum að Tryggvi Hrafn Haraldsson var aleinn við miðjuna er Valsmenn komu boltanum frá. Tryggvi gat lítið annað gert en refsa með marki.
Afskaplega klaufalegt mark að gefa frá sér en enn og aftur sýndu strákarnir okkar karakter og þeir héldu áfram að leita að marki. Verkefnið varð aðeins auðveldara á 68. mínútu er Guðmundur Andri Tryggvason í liði Vals hlaut beint rautt spjald fyrir að slæma hendi í andlit Kristian Jajalo sem lék í marki KA.
Sævar Geir Sigurjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá leiknum. Kunnum honum bestu þakkir fyrir framtakið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
Jöfnunarmarkið kom loks á 85. mínútu er Nökkvi Þeyr Þórisson kom boltanum af harðfylgi í netið og enn nægur tími til að sækja sigurmark. KA liðið þjarmaði að gestunum sem reyndu hvað þeir gátu að halda út. Nökkvi féll í teignum á 90. mínútu og vel hægt að færa rök fyrir því að það hafi átt að vera vítaspyrna, svo var hinsvegar ekki raunin og lokatölur því 1-1 jafntefli.
Að mörgu leiti svekkjandi niðurstaða enda var KA liðið að leika mjög góðan og agaðan leik. Strákarnir gleymdu sér í eitt augnablik og Valsmenn refsuðu grimmilega fyrir það.