Markalaust jafntefli í Kórnum

Fótbolti
Markalaust jafntefli í Kórnum
Hart barist í Kórnum í gær (mynd: Egill Bjarni)

KA lék sinn fyrsta leik í Pepsi Max deildinni þetta sumar í gær er liðið sótti HK heim. Mikil eftirvænting var eðlilega fyrir leiknum en bæði lið mættu varfærnislega til leiks og úr varð frekar lokaður leikur sem var lítið fyrir augað.

Strákarnir stýrðu leiknum og voru miklu meira með boltann. HK-ingar lágu til baka og beittu skyndisóknum. Leikurinn var þó nokkuð harður og fóru fjögur gul spjöld á loft í fyrri hálfleik, tvö á hvort lið. Ekki var mikið um marktækifæri í fyrri hálfleiknum sem var markalaus.

Leikurinn opnaðist örlítið í þeim síðari og reyndi KA liðið hvað það gat til að opna varnarsinnað HK liðið en án mikils árángurs. Steinþór Már Auðunsson stóð í marki KA liðsins en Kristian Jajalo handarbrotnaði á dögunum og er því fjarri góðu gamni. Steinþór átti flotta innkomu í liðið og varði til að mynda frábærlega á 72. mínútu er Stefan Alexander Ljubicic slapp einn í gegn.

Niðurstaðan því markalaust jafntefli og fyrsta stig sumarsins staðreynd. Krefjandi leikur í Kórnum eins og menn bjuggust en næsti leikur er á föstudaginn er KA sækir KR heim í Frostaskjól en KR leikur gegn Breiðablik í dag í sínum fyrsta leik í sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is