KA vann stórsigur á Aftureldingu

Fótbolti
KA vann stórsigur á Aftureldingu
Binni gerði tvö í dag (mynd: Þórir Tryggva)

KA sótti Aftureldingu heim í Lengjubikarnum í dag en leikurinn var liður í næstsíðustu umferð riðlakeppninnar. Fyrir leik var KA með 6 stig eftir þrjá leiki en Afturelding með 3 stig og þó nokkur spenna í baráttunni um sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.

Strákarnir tóku snemma völdin á vellinum og í raun aðeins tímaspursmál hvenær fyrsta markið liti dagsins ljós. Það kom á 29. mínútu þegar Brynjar Ingi Bjarnason kom boltanum í netið eftir mikið klafs í teignum.

Ásgeir Sigurgeirsson sótti svo vítaspyrnu eftir magnaðan sprett upp kantinn og Jonathan Hendrickx skoraði af öryggi af punktinum. Hálfleikstölur því 0-2 KA ívil og ljóst að heimamenn væru komnir í erfiða stöðu.

En staða þeirra átti bara eftir að verða erfiðari í þeim síðari því strákarnir héldu áfram að stýra leiknum og refsuðu grimmilega þegar Mosfellingar fóru að færa sig framar á völlinn. Daníel Hafsteinsson var felldur innan teigs og aftur fengum við því vítaspyrnu. Nú var það Hallgrímur Mar Steingrímsson sem skoraði af punktinum og staðan orðin 0-3 og 67. mínútur á klukkunni.

Þá var komið að Danna að eiga sviðsljósið og hann skoraði tvívegis á skömmum tíma. Fyrst eftir frábæra sendingu innfyrir frá Jonathan Hendrickx og svo á 73. mínútu nú með skalla eftir fyrirgjöf frá Jonathan. Staðan þar með orðin 0-5 og bara spurning hversu stór sigurinn yrði.

Afturelding fékk hinsvegar vítaspyrnu á 80. mínútu þegar Ívar Örn Árnason gerðist brotlegur innan teigs og Valgeir Árni Svansson kom boltanum framhjá Steinþóri Má Auðunssyni sem lék í marki KA að þessu sinni.

Munurinn varð aftur fimm mörk er Brynjar Ingi gerði sitt annað mark með skalla eftir frábæra aukaspyrnu frá Hallgrími Mar á 85. mínútu og Steinþór Freyr Þorsteinsson rak svo endahnútinn á 88. mínútu eftir að hafa fengið sendingu innfyrir frá Danna og lokatölur því 1-7 stórsigur að Varmá.

Virkilega gaman að sjá strákana halda fullum fókus í dag og vinna afar sannfærandi sigur. KA liðið er því með 9 stig fyrir lokaumferð riðilsins og er í góðri stöðu með að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitunum. Valur er á toppnum með 10 stig en Valsmenn gerðu 2-2 jafntefli við HK sem er í 3. sætinu með 7 stig. Efstu tvö liðin fara uppúr riðlinum.

Þá var gríðarlega skemmtilegt að sjá Elfar Árna Aðalsteinsson snúa aftur á völlinn en hann kom inn er um kortér lifði leiks og lék sinn fyrsta leik í rúmt ár eftir að hafa slitið krossband á undirbúningstímabilinu í fyrra.

Lokaleikur strákanna í riðlinum er heimaleikur gegn Grindavík á laugardaginn og þurfa að minnsta kosti stig til að tryggja sig áfram í næstu umferð en KA er með 11 mörk í plús á meðan HK er með 3 mörk í plús og þarf því að vinna ansi stóran sigur á Víking Ólafsvík endi liðin jöfn að stigum til að fara uppfyrir KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is