Flýtilyklar
KA vann 4-0, fyrsti leikur Jóhanns Mikaels
KA vann þriðja stórsigur sinn í Kjarnafæðismótinu um helgina er strákarnir sóttu Völsung heim. Staðan var að vísu markalaus í hálfleik en fjögur mörk í þeim síðari tryggðu sannfærandi 0-4 sigur KA liðsins sem er því með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sína í mótinu.
Andri Fannar Stefánsson opnaði markareikninginn á 64. mínútu og innan við mínútu síðar hafði Hallgrímur Mar Steingrímsson tvöfaldað forystuna. Heimamenn urðu svo fyrir því óláni að gera sjálfsmark er um tíu mínútur lifðu leiks og Ásgeir Sigurgeirsson innsiglaði loks sigurinn með fjórða markinu á lokamínútu venjulegs leiktíma.
Eins og áður gerði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA ófáar breytingar á liðinu og spilaði Jóhann Mikael Ingólfsson sinn fyrsta meistaraflokksleik er hann kom inn í markið í hálfleik. Jóhann sem er aðeins 15 ára gamall er gríðarlega efnilegur markvörður sem er að koma uppúr yngriflokkastarfi KA og gerði sinn fyrsta samning hjá KA á dögunum. Hann hélt að sjálfsögðu hreinu í síðari hálfleiknum og verður spennandi að sjá hvort hann fái fleiri tækifæri á næstunni.
KA mætir Dalvík/Reyni í lokaleik riðilsins á laugardaginn en KA er með fullt hús stiga og markatöluna 18-0 eftir þrjá leiki. Efsta liðið mætir efsta liðinu í hinum riðli Kjarnafæðismótsins í úrslitaleik en KA á titil að verja og alveg ljóst að strákarnir ætla að halda þessum góða dampi áfram í leiknum gegn Dalvík/Reyni.