KA valtaði yfir Ólafsvíkinga 5-0

Fótbolti
KA valtaði yfir Ólafsvíkinga 5-0
Frábær sigur í dag (mynd: Egill Bjarni)

KA mætti Víking Ólafsvík í Lengjubikarnum í Akraneshöllinni í dag en leikurinn var liður í 2. umferð riðlakeppninnar. Bæði lið höfðu tapað fyrsta leik sínum og ljóst að mikilvæg stig væru í húfi ef liðin vildu enn eiga möguleika á sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.

Arnar Grétarsson þjálfari KA stillti upp sterku liði en Belgarnir þeir Jonathan Hendrickx og Sebastiaan Brebels komu báðir inn í byrjunarliðið og léku sinn fyrsta leik fyrir félagið auk þess sem Daníel Hafsteinsson lék sinn fyrsta leik eftir endurkomuna frá Helsingborg í Svíþjóð.

Nökkvi Þeyr Þórisson kom KA yfir á 29. mínútu eftir að Jonathan Hendrickx hafði átt fyrirgjöf sem endaði með hörkuskoti frá Daníel Hafsteinssyni sem fór í stöngina og reyndist Nökkvi réttur maður á réttum stað og renndi boltanum í autt markið.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik og leiddu strákarnir því 0-1 í hléinu. Það tók hinsvegar ekki langan tíma fyrir strákana að tvöfalda forskotið en Ásgeir Sigurgeirsson gerði það strax á 47. mínútu eftir flotta sendingu innfyrir frá Nökkva Þey.

Innan við tíu mínútum síðar var staðan orðin 0-3 er Brynjar Ingi Bjarnason skallaði hornspyrnu Hallgríms Mar Steingrímssonar í netið og úrslitin í raun ráðin. Ásgeir gerði sitt annað mark skömmu síðar eftir að hann hafði stolið boltanum sjálfur og kláraði af stakri snilld stöngin inn og staðan orðin 0-4.

Jonathan Hendrickx opnaði svo markareikning sinn fyrir félagið er hann gerði fimmta og síðasta markið skömmu fyrir leikslok eftir góða sendingu frá Hallgrími Mar. Niðurstaðan þar með 0-5 stórsigur og KA blandar sér þar með af krafti inn í baráttuna um sæti í 8-liða úrslitum þegar þrjár umferðir eru eftir af riðlakeppninni.

Spilamennskan í dag var til fyrirmyndar og ljóst að liðið er á hárréttri leið fyrir komandi átök í sumar. Þá var ákaflega jákvætt að sjá þá Elvar Mána Guðmundsson, Valdimar Loga Sævarsson og Björgvin Mána Bjarnason fá tækifærið og nýta það vel en Valdimar Logi var að leika sinn fyrsta meistaraflokksleik en Elvar og Björgvin höfðu fengið tækifærið í Kjarnafæðismótinu á dögunum.

Næsti leikur KA er á laugardaginn er HK mætir norður en Kópavogsliðið hefur byrjað mótið af krafti og er með fullt hús stiga eftir 2-0 sigra á Grindavík og Aftureldingu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is