KA tryggði sér sæti í 8-liða úrslitunum

Fótbolti
KA tryggði sér sæti í 8-liða úrslitunum
Danni gerði mark KA í leiknum (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Grindavík í lokaumferð riðlakeppni Lengjubikarsins í gærkvöldi. Aðrir leikir í riðlinum fóru fram fyrr um daginn og því var orðið ljóst að strákarnir þurftu að minnsta kosti stig til að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.

Leikir KA og Grindavíkur hafa iðulega verið jafnir og einkennst af mikilli baráttu og það varð raunin í gær þrátt fyrir að gestirnir ættu ekki möguleika á að komast uppúr riðlinum. Fyrsta markið kom á 40. mínútu þegar Daníel Hafsteinsson skallaði aukaspyrnu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni laglega í netið og KA leiddi 1-0 í hálfleik.

Þrátt fyrir ágætistilraunir beggja liða stefndi í að leikurinn byði ekki upp á fleiri mörk en á 87. mínútu tókst Grindvíkingum að jafna metin með marki frá Degi Inga Hammer Gunnarssyni. Leiknum lauk því með 1-1 jafntefli sem dugði KA og strákarnir því komnir í 8-liða úrslit Lengjubikarsins ásamt Íslandsmeisturum Vals.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is