Flýtilyklar
KA mætir ÍBV í dag í Eyjum
KA sækir Bikarmeistara ÍBV heim í dag klukkan 16:00 í 14. umferð Pepsi deildar karla. KA liðið er búið að vera á miklu skriði að undanförnu og hefur unnið síðustu þrjá leiki sína. Liðið hefur náð að slíta sig frá neðri hlutanum og er aðeins tveimur stigum frá 4. sætinu og því mikilvægt að halda áfram á sigurbraut.
Heimamenn hafa verið að koma til og eru ósigraðir í síðustu þremur leikjum en þeir höfðu tapað þremur leikjum í röð fyrir þá leiki. Liðið stendur í 9. sæti, 5 stigum á eftir KA og því ansi mikilvægt fyrir heimamenn að sækja sigur til að koma sér nær baráttunni fyrir miðju.
KA og ÍBV mættust fyrr í sumar á Greifavellinum fyrir norðan og þá vann KA afar góðan 2-0 sigur með mörkum frá Elfari Árna Aðalsteinssyni og Ásgeiri Sigurgeirssyni. Það hefur þó oft gengið erfiðlega fyrir okkar lið að sækja sigur í Vestmannaeyjum en leikur liðanna í fyrra fór 3-0 fyrir ÍBV. Síðasti sigur KA í Eyjum kom árið 2003 þegar KA sneri 2-1 stöðu yfir í 2-3 sigur með mörkum frá Hreini Hringssyni og Steinari Tenden. Fyrsta mark KA var sjálfsmark.
Leikurinn í dag verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport þannig að það er um að gera að fylgjast vel með gangi leiksins ef þú ert ekki staddur í Vestmannaeyjum, áfram KA!