Flýtilyklar
KA lagði Þór tvívegis í 3. flokki í gær
Það voru tveir hörkuleikir á KA-vellinum í gær er KA tók á móti nágrönnum sínum í Þór í 3. flokki karla B. Eins og alltaf í nágrannaslögum liðanna var hart barist en á endanum fór KA með sigur af hólmi í báðum leikjum.
Í fyrri leiknum mættust A-lið félaganna þar sem Tómas Þórðarson kom KA yfir strax á 3. mínútu en Þórsarar jöfnuðu metin skömmu síðar. Elías Franklin Róbertsson kom KA aftur yfir með laglegu marki á 27. mínútu en aftur jöfnuðu gestirnir og staðan var því jöfn 2-2 í hálfleik.
Í upphafi síðari hálfleiks gerði Elías sitt annað mark í leiknum og kom KA í 3-2, enn og aftur jöfnuðu gestirnir metin en lokakaflinn var okkar liðs og strákarnir fóru með 5-3 sigur af hólmi með mörkum frá þeim Einari Ingvarssyni og Tómasi Þórðarsyni.
Í kjölfarið mættust B-liðin og þar vann KA mjög góðan 3-1 sigur þar sem Garðar Gísli Þórisson og Gunnar Breki Gíslason skoruðu báðir í fyrri hálfleik og staðan var því 2-0 fyrir KA í hléinu. Gestirnir minnkuðu muninn snemma í síðari hálfleik en Gunnar Breki kláraði leikinn með öðru marki sínu og niðurstaðan því 3-1 sigur KA.
Þetta voru fyrstu leikir liðanna í deildum sínum og fara því bæði vel af stað og verður gaman að fylgjast með strákunum í sumar.