Flýtilyklar
KA lagði Leikni F. að velli 3-0
KA vann góðan 3-0 sigur á Leikni Fáskrúðsfirði er liðin mættust í Boganum í dag í Kjarnafæðismótinu. KA var fyrir leikinn með fullt hús stiga eftir þrjá leiki en þurfti á sigri að halda til að endurheimta toppsætið í mótinu og það tókst.
Leikurinn fór ansi rólega af stað en KA liðið stillti upp gríðarlega sterku byrjunarliði í leiknum þar sem KA2 lék á sama tíma á Húsavík gegn Völsung. KA2 vann einmitt 2-3 sigur þar sem Þorsteinn Már Þorvaldsson gerði tvö mörk og Adam Örn Guðmundsson gerði eitt.
Elfar Árni Aðalsteinsson gerði fyrsta mark leiksins á 27. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf frá Hrannari Birni Steingrímssyni laglega í netið. Strákarnir stýrðu leiknum og voru til að mynda með boltann 69% fyrri hálfleiks en það var þó eins og einhvern neista vantaði og mörkin urðu því ekki fleiri í fyrri hálfleiknum.
Aðeins meira líf kviknaði í þeim síðari og Nökkvi Þeyr Þórisson tvöfaldaði forystuna nokkrum sekúndum eftir að hann kom inná sem varamaður á 68. mínútu. Hrannar Björn gerði svo þriðja markið með frábæru marki beint úr aukaspyrnu á 75. mínútu.
Fleiri urðu mörkin ekki og afar öruggur 3-0 sigur því staðreynd. KA liðið hefur því unnið alla fjóra leiki sína á mótinu til þessa og loks tókst strákunum að halda hreinu. Markatalan er 18-3 en næsti leikur er gegn Dalvík/Reyni næsta laugardag á KA-vellinum. Dalvík/Reynir er í þriðja sæti mótsins með tvo sigra og tvö jafntefli.