KA í Evrópu - takk fyrir stuðninginn!

Fótbolti

KA náði langþráðu markmiði sínu á dögunum að tryggja sér sæti í Evrópukeppni í knattspyrnu með frábærum árangri í sumar. KA mun því taka þátt í Evrópukeppni í þriðja skiptið í sögunni næsta sumar og má með sanni segja að mikil eftirvænting sé fyrir því verkefni.

Þessi magnaði árangur er alls engin tilviljun og er gífurleg vinna að baki hjá fjölmörgum aðilum sem er að skila því að KA er eitt besta knattspyrnulið Íslands og verður fulltrúi Íslands í Evrópu á næstu leiktíð.

Við viljum þakka öllum sem koma að okkar starfi innilega fyrir stuðninginn. Hvort sem það eru leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn, starfsmenn, sjálfboðaliðar eða styrktaraðilar félagsins að þá er framlag allra aðila gríðarlega mikilvægt í þessari vegferð sem er hvergi nærri lokið, við ætlum okkur nefnilega enn lengra!

KA tryggði sér fyrst sæti í Evrópukeppni meistaraliða sumarið 1990 með því að verða Íslandsmeistari í Hörpudeild sumarið 1989 og var það í fyrsta skiptið sem félagið lék í Evrópukeppni. Þar mætti KA stórliði CSKA Sofia frá Búlgaríu og gerði sér lítið fyrir og vann fyrri leik liðanna 1-0 á Akureyrarvelli. Það dugði þó ekki því CSKA vann síðari leikinn 3-0.

Aftur tryggði KA sér sæti í Evrópukeppni með því að enda í 4. sæti Símadeildarinnar sumarið 2002 og lék því í Intertoto keppninni sumarið 2003. Þar mætti KA liði FK Sloboda Tuzla frá Bosníu en liðin gerðu 1-1 jafntefli í báðum leikjum og fór einvígið því í vítaspyrnukeppni. Þar fóru Tuzla menn með sigur af hólmi og fóru því áfram.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is