Flýtilyklar
KA fer af stað í Bestu deildinni
KA tekur á móti Leikni R. í Bestu-deild karla í knattspyrnu á morgun, miðvikudag. Leikurinn hefst kl. 18:00 á Dalvíkurvelli.
KA-menn ætla sér að hefja sumarið af krafti og mæta Leikni frá Reykjavík. Liðin mættust tvisvar sinnum í Pepsi-deildinni síðastliðið sumar og vann KA báða leikina. Fyrri leikur liðanna fór fram á Dalvíkurvelli á vordögum 2021. Þar vann KA mjög sannfærandi 3-0 sigur þar sem að Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö mörk og Ásgeir Sigurgeirsson eitt.
Síðari leikur liðanna fór fram á Leiknisvelli í lok júlí og vann KA sterkan útisigur, 0-1 með marki frá Ásgeiri Sigurgeirssyni.
Það verður fróðlegt að sjá viðureign þessara liða á morgun en KA hefur glímt við töluvert af meiðslum á undirbúningstímabilinu en það er von KA-manna að sem flestir verði leikfærir á morgun. Úkraínumaðurinn, Oleksii Bykov, er kominn með leikheimild og verður gjaldgengur á morgun en hann kemur til liðs við KA frá FK Mariupol í Úkraínu. Þá er ljóst að Bryan Van Den Bogaert mun spila sinn fyrsta keppnisleik fyrir KA en hann gekk til liðs við KA í febrúar.
Sem fyrr segir hefst leikurinn kl. 18:00 á hinni Draumbláu Dalvík.
Miðasala fer fram í gegnum Stubb (app) eða við vallarinnganginn á Dalvík. Við hvetjum KA-menn til þess að fjölmenna á völlinn enda er veðurspá góð og tilhlökkun að hefja fótboltasumarið.